Langflestir ferðamenn með bílaleigubíl

Bróðurpartur þeirra útlendinga sem fór um landið síðasta sumar keyrði um í bílaleigubíl. Þrátt fyrir vinsældirnar þessa ferðamáta þá hefur rekstur bílaleigufyrirtækja verið þungur undanfarin ár.

island vegur ferdinand stohr
Mynd: Ferdinand Stohr / Unsplash

Rúmlega átta af hverjum tíu ferðamönnum sem heimsóttu Stykkishólm síðasta sumar ferðuðust með bílaleigubílum. Hlutfallið var álíka meðal ferðamanna í Vík, Hvammstanga og Húsavík en aðeins lægra á Egilsstöðum. Þangað fóru tveir af hverjum þremur ferðamönnum í leigðu ökutæki. Rétt um þriðji hver ferðamaður á Ísafirði kom til bæjarins  með bílaleigubíl en ef farþegar skemmtiferðaskipa eru ekki meðtaldir þá var hlutfallið álíka á Ísafirði og í hinum bæjunum.

Þetta sýna niðurstöður nýbirtrar ferðavenjukönnunar Ferðamálastofu sem framkvæmd var síðastliðið sumar og einnig sumarið 2014. Þá var hlutdeild bílaleigubílanna ekki eins há og þá komu til að mynda aðeins fjórir af hverjum tíu ferðamönnum til Egilsstaða í bílaleigubíl. Ökumennirnir voru líka færri á Húsavík og Stykkishólmi. Hvammstangi og Vík voru ekki hluti af könnuninni fyrir fimm árum síðan.

Auknar vinsældir bílaleigubíla hafa greinilega komið niður á vægi hópferða- og áætlunarbifreiða eins og sjá má á súluritunum hér fyrir neðan. Sérstaklega þegar kemur að ferðalögum til Egilsstaða. Nærri þriðji hver ferðamaður kom þangað í rútu eða strætó sumarið 2014 en rétt um áttundi hver síðasta sumar.

Að sögn Steingríms Birgissonar, forstjóra Bílaleigu Akureyrar-Höldur, þá jókst hlutfall ferðamanna á bílaleigubílum hvað mest fyrir um fimm árum síðan en hefur að hans mati lítið breyst síðustu tvö til þrjú ár. En þrátt fyrir hinar miklu vinsældir bílaleigubíla, meðal ferðamanna hér á landi, þá hefur rekstur bílaleigufyrirtækja vera þungur síðustu misseri líkt og fram kom skýrslu KPMG nýverið.

Ástæðurnar fyrir því að reksturinn hefur þyngst, þrátt fyrir fleiri leigutaka, eru nokkrar að mati Steingríms. Hann segir rektrarumhverfið erfitt, rekstur bíla sé dýr hér á landi og leiguverð hafi oft á tíðum of lágt, t.d. vegna mikillar samkeppni. Þetta hafi í för með sér taprekstur. En þar sem bílaleigubílum hefur fækkað í ár þá bindur Steingrímur vonir við að ástandið skáni enda hafi bílarnir verið orðnir of margir.

Í síðustu landamærakönnun Ferðamálastofu þá sögðust um þrír af hverjum fimm ferðamönnum hér á landi hafa ferðast um í bílaleigubíl. Hjá fjölmennustu þjóðunum þá var hlutfallið hæst hjá Frökkum (82,5%) en lægst hjá Bretum (38,4%).