Mun fleiri íslenskir hótelgestir á Vesturlandi og Vestfjörðum

Á landsvísu fækkaði þeim heimamönnum sem tékkuðu sig inn á hótel. Það átti hins vegar ekki við á vesturhluta landsins.

Löngufjörur á Snæfellsnesi. Mynd: Iceland.is

Það flugu nærri sex þúsund færri Íslendingar til útlanda í júlí síðastliðnum í samanburði við sama tíma í fyrra. Það er vísbending um að fleiri hafi ferðast innanlands í sumarfríinu en engu að síður fækkaði íslenskum hótelgestum út um allt land nema á Vesturlandi og Vestfjörðum. Í þeim landshluta fjölgaði hótelnóttum Íslendinga töluvert eða um 27,5 prósent í júlí samkvæmt nýbirtum gistináttatölum Hagstofunnar. Þar hefur blíðviðrið á Vesturlandi líklega haft þónokkur áhrif en á landsvísu fækkaði íslenskum hótelnóttunum um 16 prósent.

Þess ber að geta að ekki er hægt að greina gistináttatölurnar í júlí eftir þjóðernum nema þegar kemur að gistingu á hótelum. Þannig er ennþá ekki hægt að sjá hver þróunin var í fjölda íslenskra gesta á gistiheimilum, tjaldstæðum og víðar.

Á sama tíma og heimamenn sóttu meira í hótelgistingu á vesturhluta landsins þá fækkaði útlensku hótelgestunum þar. Þeim fjölgaði þó annars staðar á landsbyggðinni. Hlutfallslega langmest á Norðurlandi eða um fimmtung eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.