Sala á áramótaflugum til Tenerife gengur best

Kraftmikil innkoma Norwegian á íslenskan sólarmarkað var óvænt og af farmiðaverðinu að dæma þá er mikið um laus sæti í ferðir félagsins til Kanaríeyja. Það á þó ekki við brottfarirnar í lok árs.

Frá sundlaugabakka á Tenerife. Mynd: Ferðamálaráð Spánar

WOW air var stórtækt í flugi til bæði Tenerife og Las Palmas á Kanaríeyjum og þegar hæst stóð bauð félagið upp á allt að þrjár ferðir í viku til fyrrnefndu eyjunnar auk vikulegra brottfara til Las Palmas. Strax í kjölfar gjaldþrots keppinautarins gáfu sjórnendur Icelandair út að félagið myndi fylla þetta skarð en ekki hefur heyrst meira af þeim áformum. Í millitíðinni hefur Norwegian hafið sölu á fimm vikulegum ferðum til Tenerife í vetur og tveimur til Las Palmas.

„Salan á flugleiðinni milli Reykjavíkur [Keflavíkurflugvallar] og Tenerife hefur verið aukast undanfarið, sérstaklega í kringum áramót, og við erum ánægð með það,“ segir Astrid Mannion-Gibson, blaðafulltrúi Norwegian, aðspurð um viðtökurnar við þessu óvenju mikla framboði. Og það er greinilegt af fargjöldunum sem í boði eru á heimasíðu Norwegian að brottfarirnar kringum jól og áramót eru miklu dýrari en aðrar. Á öðrum dagsetningum er verðið oft lágt og hægt að fljúga út til Tenerife og Las Palmas og heim aftur fyrir rétt 40 þúsund krónur á ófáum dagsetningum.

Áður en Norwegian tilkynnti um áform sín um að fljúga svona oft milli Íslands og Kanaríeyja þá höfðu stjórnendur Heimsferða samið við flugfélagið um að ferja farþega ferðaskrifstofunnar vikulega til Tenerife og jafn oft til Las Palmas í vetur. Þessar brottfarir voru lengi vel fráteknar fyrir Heimsferðir en eru nú líka til sölu á heimasíðu Norwegian. Skýringin á því er sú að ferðaskrifstofan hefur fjölgað sætunum til bæði Tenerife og Kanaríeyja og býður upp á tvær ferðir í viku til hvorrar eyju með Norwegian að sögn Tómasar J. Gestsson, forstjóra Heimsferða.

Ferðaskrifstofurnar Úrval-Útsýn og Vita, systurfélag Icelandair, eru einnig umsvifamiklar í sölu á pakkaferðum til Tenerife og Las Palmas og sameinast þær um leiguflug Icelandair til eyjanna. Hjá Úrval-Útsýn stendur farþegum þó líka til boða flug með Norwegian og segir Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval-Útsýnar, að ferðum til Tenerife og Las Palmas með Norwegian verði fjölgað ef eftirspurn er fyrir hendi.