Sala á áramóta­flugum til Tenerife gengur best

Kraftmikil innkoma Norwegian á íslenskan sólarmarkað var óvænt og af farmiðaverðinu að dæma þá er mikið um laus sæti í ferðir félagsins til Kanaríeyja. Það á þó ekki við brottfarirnar í lok árs.

Frá sundlaugabakka á Tenerife. Mynd: Ferðamálaráð Spánar

WOW air var stór­tækt í flugi til bæði Tenerife og Las Palmas á Kana­ríeyjum og þegar hæst stóð bauð félagið upp á allt að þrjár ferðir í viku til fyrr­nefndu eyjunnar auk viku­legra brott­fara til Las Palmas. Strax í kjölfar gjald­þrots keppi­naut­arins gáfu sjórn­endur Icelandair út að félagið myndi fylla þetta skarð en ekki hefur heyrst meira af þeim áformum. Í milli­tíð­inni hefur Norwegian hafið sölu á fimm viku­legum ferðum til Tenerife í vetur og tveimur til Las Palmas.

„Salan á flug­leið­inni milli Reykja­víkur [Kefla­vík­ur­flug­vallar] og Tenerife hefur verið aukast undan­farið, sérstak­lega í kringum áramót, og við erum ánægð með það,” segir Astrid Mannion-Gibson, blaða­full­trúi Norwegian, aðspurð um viðtök­urnar við þessu óvenju mikla fram­boði. Og það er greini­legt af fargjöld­unum sem í boði eru á heima­síðu Norwegian að brott­far­irnar kringum jól og áramót eru miklu dýrari en aðrar. Á öðrum dagsetn­ingum er verðið oft lágt og hægt að fljúga út til Tenerife og Las Palmas og heim aftur fyrir rétt 40 þúsund krónur á ófáum dagsetn­ingum.

Áður en Norwegian tilkynnti um áform sín um að fljúga svona oft milli Íslands og Kana­ríeyja þá höfðu stjórn­endur Heims­ferða samið við flug­fé­lagið um að ferja farþega ferða­skrif­stof­unnar viku­lega til Tenerife og jafn oft til Las Palmas í vetur. Þessar brott­farir voru lengi vel fráteknar fyrir Heims­ferðir en eru nú líka til sölu á heima­síðu Norwegian. Skýr­ingin á því er sú að ferða­skrif­stofan hefur fjölgað sætunum til bæði Tenerife og Kana­ríeyja og býður upp á tvær ferðir í viku til hvorrar eyju með Norwegian að sögn Tómasar J. Gestsson, forstjóra Heims­ferða.

Ferða­skrif­stof­urnar Úrval-Útsýn og Vita, syst­ur­félag Icelandair, eru einnig umsvifa­miklar í sölu á pakka­ferðum til Tenerife og Las Palmas og sameinast þær um leiguflug Icelandair til eyjanna. Hjá Úrval-Útsýn stendur farþegum þó líka til boða flug með Norwegian og segir Þórunn Reyn­is­dóttir, forstjóri Úrval-Útsýnar, að ferðum til Tenerife og Las Palmas með Norwegian verði fjölgað ef eftir­spurn er fyrir hendi.