Samdrátturinn skrifast aðallega á skiptifarþega

Helmingi færri farþega nýttu Keflavíkurflugvöll sem skiptistöð í júlí í samanburði við sama tíma í fyrra.

Hópur skiptifarþega er nú sá fámennasti í Leifsstöð. Mynd: Isavia

Rétt um 344 þúsund færri farþegar fóru um Flugstöð Leifs Eiríkssonar í júlí síðastliðnum. Nam fækkunin 29 prósentum í heildina og munar þar langmestu um að hópur skiptifarþega dróst saman um 52 prósent eða 262 þúsund farþega. Komu- og brottfararfarþegum fækkaði um tólf af hundraði eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

Skýringin á færri skiptifarþegum liggur sennilega að mestu leyti í brotthvarfi WOW air enda var félagið stórtækt í flugi til bæði Norður-Ameríku og Evrópu. Í fyrrasumar fjölgaði félagið áfangastöðum sínum vestanhafs og það gerði Icelandair líka. Á sumum þessum áfangastöðum voru íslensku félögin þau einu sem buðu upp á Evrópuflug og má því gera ráð fyrir að hlutfall tengifarþega hafi verið hátt í þotum félaganna sem flugu til og frá Cincinnati, St. Louis, Kansas og Cleveland síðastliðið sumar.

Færri tengifarþegar í ár skrifast líka á aukna áherslu Icelandair á farþega á leið til og frá Íslandi í stað þeirra sem aðeins millilenda hér á leið sinni yfir Norður-Atlantshafið.