Sjá tækifæri í auknu flugi til Austur-Evrópu

Mikil eftirspurn í Bandaríkjunum eftir ferðum til Tékklands, Póllands og Ungverjalands er ástæða þess að stærsta flugfélag heims bætir við ferðum þangað. Icelandair er stórtækt í flugi til Bandaríkjanna en er ekki með neinn áfangastað í austurhluta Evrópu.

Frá Prag. Mynd: Alejandro Cartagena / Unsplash

Nú í sumar hafa þotur American Airlines í fyrsta sinn flogið nokkrar ferðir í viku frá bandarísku borginni Philadelphia og yfir til Prag og Búdapest. Viðtökurnar við þessari nýjung hafa greinilega verið góðar því nú boðar American Airlines áætlunarferðir frá O’Hare flugvelli í Chicago til höfuðborga Tékklands og Ungverjalands en einnig til Kraká í Póllandi.

Mikil eftirspurn í Chicago eftir ferðalögum til Austur-Evrópu er meginskýringin á þessum nýju flugleiðum samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu. Félagið tilkynnti líka nyverið að Íslandsflug þess myndi flytjast frá Dallas til Philadelphia næsta sumar.

Þessir landvinningar American Airlines í austurhluta Evrópu með flugi frá Chicago og Philadelpia eru sérstaklega áhugaverðir í ljósi þess að þotur Icelandair fljúga allt árið um kring til Chicago og yfir sumarmánuðina til Philadelpia. Aftur á móti hefur Icelandair haldið sig fjarri A-Evrópu ef frá er talið sumarflug til Sankti Pétursborgar fyrir nokkrum árum síðan. Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú að ef þotur Icelandair halda of langt í austur að morgni þá komast þær ekki til landsins í tæka tíð fyrir seinniparts brottfarirnar til Norður-Ameríku. Þar með fer Icelandair á mis við hluta af þeim markaði vestanhafs sem er í ferðalögum til í Austur-Evrópu og stjórnendur American Airlines ætla sér stærri hluta af.

Reyndar geta farþegar sem sjálfir setja saman flugferðina yfir hafið, með tveimur flugfélögum, valið að fljúga frá Philadelphia og Chicago með Icelandair og svo áfram frá Keflavíkurflugvelli með Wizz Air til Budapest eða Kraká eða með Czech Airlines til Prag.