Sjóböðin vinsælli hjá Íslendingum en gert var ráð fyrir

Sjóböðin á Húsavík voru nýverið valin á árlegan lista Time tímaritsins. Hlutfall heimamanna í böðunum hefur verið mun hærra en reiknað var með.

Mynd: Sjóðböðin

„Þetta er viðurkenning á því að við erum með eitthvað algjörlega einstakt í höndunum og kemur þá vonandi til með að skila sér í auknum áhuga ferðamanna á staðnum,“ segir Sigurjón Steinsson, framkvæmdastjóri Sjóbaðanna, um þýðingu þess að böðin komust á árlegan topplista Time tímaritsins yfir mikilfenglegustu áfangastaði í heiminum. Sjóböðin opnuðu á Húsavíkurhöfða fyrir tæpu ári síðan og eitt af því sem skapar böðunum sérstöðu er útsýnið yfir fjallgarðinn í vestri, Skjálfandaflóann fyrir neðan klettana og heimskautsbauginn við sjóndeildarhring eins og segir í tilkynningu.

Að sögn Sigurjóns hefur ásóknin í Sjóböðin verið nokkuð góð og það styttist í að heimsóknirnar í ár verði orðnar fjörutíu þúsund talsins. Aðspurður segir framkvæmdastjórinn að vægi Íslendinga í þeim hópi hafi verið mun hærra en reiknað var með og um fjórir af hverjum tíu gestum í Sjóböðunum í sumar hafi íslenskir.

Samkvæmt ferðavenjukönnun Ferðamálastofu, sem gerð var síðastliðið sumar, þá tilgreindu 79 prósent erlendra ferðamanna á Húsavík að hvalir og hvalaskoðun væri helsta ástæða þess að þeir lögðu leið sína til bæjarins. Tilkoma Sjóbaðanna kann að hafa í för með sér breytingar á þessu hlutfalli og þá gæti vera útlendinga í bænum líka lengst með fleiri afþreyingarmöguleikum en meðaldvalarlengd útlendinga á Húsavík var 21 klukkustund í fyrrasumar.

Það er nokkru lengri dvöl en sumarið áður þegar hún var um fimmtán klukkustundir. Samkvæmt úttekt Ferðamálastofu þá skrifast sú þróun á hærra hlutfall næturgesta en flestir ferðamenn dvelja í bænum í þrjár til sex klukkustundir.