Taka upp þráðinn á Keflavíkurflugvelli á næsta ári

Önnur sumarvertíð United Airlines hér á landi stendur nú yfir og stjórnendur félagsins eru þegar farnir að selja miða fyrir næsta sumar.

Í sumar hafa þrjú flugfélög boðið upp á beint flug milli Íslands og flugvallanna við New York. Á því verður ólíklega breyting næsta sumar. Mynd: Hector Arguello

Þau hafa verið óvenju há fargjöldin hjá United Airlines í Íslandsflug félagsins næsta sumar. Þess háttar verðlagning er oft undanfari þess að flugleið er felld niður en það mun ekki vera skýringin á bak við farmiðaverðið hjá bandaríska félaginu . Talskona þess staðfestir nefnilega við Túrista að United Airlines ætli sér að snúa aftur til Íslands næsta sumar. Sala á flugmiðum er þó varla hafin og til að mynda er núna aðeins hægt að bóka farmiða fram í byrjun júlí.

United Airlines flýgur hingað daglega frá Newark flugvelli við New York borg frá byrjun júní og fram í fyrstu viku október. Auk bandaríska flugfélagsins þá býður Icelandair upp á ferðir til borgarinnar og einnig Delta Air Lines.