Neikvæð áhrif á hverja MAX vél miklu hærri hjá Icelandair

Að mati stjórnenda Icelandair þá er tjón félagsins vegna kyrrsetningar Boeing MAX þotanna umtalsvert meira en hjá Norwegian. Það félag var þó með þrefalt fleiri MAX þotur þegar flugbannið var sett á í mars.

Fjórar af Boeing MAX þotum Icelandair. Mynd: Gunnlaugur Rögnvaldsson

Icelanda­ir tapaði um um 11 millj­örðum króna á fyrri helmingi ársins sam­kvæmt uppgjöri sem félagið birti í gærkvöld. Tapið var tæplega helmingi meira en á sama tíma í fyrra og hátt í sexfalt hærra en á fyrri hluta árs 2017. Nei­kvæð áhrif af kyrr­setn­ingu Boeing MAX þota félagsins er metin á um það bil sex millj­arða króna á öðrum árs­fjórðungi. Það eru um 670 milljónir kr. á hverja af þeim níu MAX þotum sem félagið hugðist nota í sumaráætlun sinni.

Þetta eru miklu meiri áhrif en stjórnendur Norwegian gerðu ráð fyrir vegna þotanna í uppgjöri sínu fyrir fyrri helmingi ársins. Þar eru áhrifin af kyrrsetningunni metin á um 5,5 milljarðar króna. Norwegian hafði fengið 18 MAX þotur afhentar þegar flugbannið var sett á um miðjan mars. Tapið á hverja kyrrsetta MAX þotu er því um 305 milljónir króna hjá Norwegian eða ríflega helmingi minna en hjá Icelandair.

Um áramót gerðu áform Norwegian ráð fyrir að félagið hefði 34 MAX þotur í rekstri og að neikvæð áhrif á reksturinn myndu nema um 10 milljörðum í ár. Heildartjón Icelandair vegna kyrrsetningar er hins vegar metið á um 17 milljarða króna í ár og fréttum Rúv sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, að ætlun væri að fá allt tjónið bætt frá Boeing.