Treystu þeim upplýsingum sem WOW air veitti

Forsvarsmenn verðbréfafyrirtækisins Pareto segja að stjórnendur WOW air hafi staðfest að upplýsingarnar sem birtar voru í tengslum við skuldabréfaútboðið síðasta haust hafi gefið rétta mynd af fyrirtækinu. Staða fyrirtækisins var hins vegar veikari en þar kom fram samkvæmt því sem segir í skýrslu skiptastjóra.

Þota WOW á Stansted flugvelli í London. Mynd: London Stansted

Í nýrri úttekt endurskoðendafyrirtækisins Deloitte, sem unnin var fyrir þrotabú WOW air, segir að færa megi rök fyrir því að eigið fé WOW hafi verið orðið neikvætt strax um mitt síðasta ár. Á sama tíma var félagið að hefja sölu skuldabréfa og umsjón með útgáfunni hafði skandinavíska verðbréfafyrirtækið Pareto. Alls seldust skuldbréf fyrir um 6,4 milljarða króna og þóknun Pareto hefur, samkvæmt tölum í úttekt þrotabúsins, numið um 13 milljónum kr.

Í ljósi niðurstöðu Deloitte telja skiptastjórar WOW að vísbendingar séu uppi um að fjárhagsupplýsingar sem fram komu í kynningu á skuldabréfaútgáfunni, sem líklega var gerð opinber fyrir slysni, hafi verið ófullnægjandi og ekki gefið raunsanna mynd af stöðu flugfélagsins.

Túristi leitaði viðbragða Pareto á þessum ályktunum og í svari verðbréfafyrirtækisins segir að Pareto og fjárfestarnir hafi treyst þeim upplýsingum sem fengust frá WOW air, bæði endurskoðuðum og óendurskoðuðum skýrslum. Þar segir jafnframt að áður en markaðssetning á skuldabréfunum hófst, og eins á meðan á söluferlinu stóð, hafi WOW air staðfest skriflega að upplýsingarnar gæfu rétta mynd af fyrirtækinu og fjárhagsstöðu þess og einnig að engar mikilvægar upplýsingar væru undanskildar.

Deloitte og skiptastjórar WOW air gera í skýrslum sínum, sem birtar voru á föstudaginn, einnig athugasemdir við kaup WOW air á sextíu prósent hlut í vöruflutningafyrirtækinu Cargo Express af Títan, eignarhaldsfélagi Skúla Mogensen, í júní í fyrra. Skiptastjórar segja það til athugunar hvort hlutafé Cargo Express hafi verið tekið yfir á of háu verði og verðmat KPMG, endurskoðanda WOW air, á vöruflutningafyrirtækinu eru dregnir í efa. Meðal annars vegna þess að við mat á virði hafi ekki verið horft til nýs þjónustusamnings milli þessara tveggja dótturfélaga Títan þar sem þóknun WOW air, gagnvart Cargo Express, var hækkuð úr 50 prósentum í 72 prósent.

Þess má geta að skiptastjóri Primera Air, flugfélagsins sem var í eigu Andra Más Ingólfssonar, hefur það til skoðunar hvernig staðið var að reikningsskilum fyrirtækisins en endurskoðandi þess var Deloitte. Sama fyrirtæki og er nú skiptastjórum WOW air innan handar við mat á reikningsskilum WOW air.

Það var svo Arion banki sem var viðskiptabanki bæði WOW air og Primera Air og hefur bankinn tapað milljörðum á viðskiptum sínum við flugfélögin tvö. Arion lánaði til að mynda Skúla Mogensen fyrir kaupum hans í skuldabréfaútgáfu WOW air sl. haust sem gerð voru m.a. til að útgáfan næði lágmarks upphæð, þ.e. um 50 milljónum evra, eða um 6,4 milljörðum króna á þáverandi gengi.