Varaformaður stjórnar Icelandair segist hafa uppfyllt tilkynningaskylduna

Virði hlutabréfa í Icelandair hækkaði snögglega undir lok síðustu viku eftir að tilkynnt var um 77 milljón króna hlutabréfakaup stjórnarmannsins Ómars Benediktssonar. Fimm viðskiptadögum síðar var tilkynningin leiðrétt og kjölfarið hefur gengið lækkað umtalsvert.

Mynd: Icelandair

Afkoma Icelandair hefur farið versnandi í ár sem skrifast að miklu leyti á kyrrsetningu MAX þota félagsins. Gengi hlutabréfa félagsins hefur á sama tíma lækkað verulega eða um rúman fjórðung það sem af er ári. Markaðurinn brást þó jákvætt við tilkynningu sem Icelandair sendi frá sér á fimmtudaginn í síðustu viku þar sem fram kom að Ómar Benediktsson, varaformaður stjórnar Icelandair Group, hefði keypt hluti í félaginu fyrir um 77 milljónir króna. Í kjölfarið hækkað gengi bréfanna um tvö prósent.

Rúmum sex sólarhringum síðar sendi Icelandair svo frá nýja tilkynningu þar sem sú eldri var leiðrétt. Núna var sagt að Ómar hefði í raun ekki keypt ný bréf í Icelandair heldur aðeins selt hlut sinn í félaginu Traðarhyrnu, sem stofnað var um kaup á hlutum í Icelandair, í skiptum fyrir umrædda hluti í flugfélaginu. Markaðurinn tók þessum tíðindum illa því gengi bréfa Icelandair Group lækkuðu þónokkuð í gærmorgun en réttu svo úr kútnum að mestu leyti fyrir dagslok.

Aðspurður um afhverju það hafi tekið Icelandair og hann sjálfan nærri fimm heila viðskiptadaga að leiðrétta misskilninginn þá segir Ómar að tilkynningin í síðustu viku hafi ekki verið röng. „Ég uppfyllti rannsóknar- og tilkynningaskyldu mína sem frumherji í tengslum við þessi viðskipti. Hins vegar komu fram skoðanir síðustu daga sem töldu að upplýsa hefði átt nánar um hið sérstaka eðli viðskiptanna samanber það sem fram kemur í athugasemdum með uppfærðri tilkynningu félagsins,“ segir Ómar í svari til Túrista.