WOW græddi líka á sölu hinna þotanna

Þoturnar fjórar sem skiptastjórar WOW og Skúli Mogensen deila nú um eru ekki þær einu sem flugfélagið festi kaup á. Félagið átti á sínum tíma átta þotur og segir Skúli að WOW hafi líka hagnast á sölu hinna fjögurra.

John Leahy framkvæmdastjóri hjá Airbus og Skúli Mogensen sumarið 2016 þegar WOW air keypti fjórar nýjar þotur af franska flugvélaframleiðandanum. Mynd: WOW air

Að mati sérfræðinga Deloitte og skiptastjóra WOW air er erfitt að greina viðskiptalegar forsendur að baki þóknun, upp á rúman milljarð króna, sem WOW air bar að greiða Títan, móðurfélagi flugfélagsins, fyrir kauprétti að fjórum Airbus þotum. Sérstaklega þar sem Títan fékk kaupréttinn án endurgjalds frá leigusölum þotanna fjögurra samkvæmt því sem segir í úttekt skiptastjóra WOW sem kynnt var á föstudag. Þoturnar fjórar voru seldar til Air Canada um síðustu áramót.

Skúli Mogensen, fyrrum eigandi WOW air, segir það hins vegar fráleitt að halda því fram að Títan hafi fengið kaupréttinn ókeypis. „Hið rétta er að Títan fékk umræddan kauprétt gegn því að ábyrgjast allar greiðslur WOW air í tíu ár upp á tugi milljarða vegna umræddra kaupa. Þetta var skilyrði af hálfu flugvéla leigandans.“ Skúli fullyrðir jafnframt að Títan hafi ekki fengið umræddan milljarð í reiðufé heldur að mestu leyti í formi fleiri hlutabréfa í WOW air. „WOW air seldi umræddar flugvélar til Air Canada gegn greiðslu í reiðufé og því augljóslega rangt að tala um að engin verðmæti hafi skapast eða átt sér stað,“ segir fyrrum eigandi WOW air í tilkynningu.

Þoturnar fjórar sem seldar voru Air Canada voru ekki einu flugvélarnar sem WOW air keypti á sínum tíma. Sumarið 2016 greindi WOW air til að mynda frá kaupum á fjórum nýjum Airbus A321 þotum og í tilkynningu sagði að listaverð viðskiptanna væri 55 milljarðar íslenskra króna.

Aðspurður um hvort það hafi verið Títan eða WOW air sem hagnaðist síðar á sölu þessara fjögurra flugvéla þá segir Skúli, í svari til Túrista í dag, að það hafi verið flugfélagið sjálft sem átti og græddi líka á þessum flugvélum. Hann segir þoturnar hafa verið keyptar beint af flugvélaframleiðandanum en þær síðan seldar og endurleigðar á ný. „Það var allt beint á WOW.“