40 þúsund færri erlendir ferðamenn

Í nýliðnum ágúst fækkaði brottförum erlendra ferðamanna frá Keflavíkurflugvelli um 13,5 prósent. Mestu munar um mikinn samdrátt í fjölda þeirra bandarísku.

Mynd: Guus Baggermans / Unsplash

Nú er háannatími í ferðaþjónustunni að baki og samkvæmt talningum Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli þá voru erlendu ferðamennirnir 679 þúsund talsins yfir sumarmánuðina þrjá. Í fyrra sumar voru þeir um 804 þúsund og nemur samdrátturinn um 125 þúsund manns eða um 16 prósentum.

Líkt og áður þá er ágúst sá mánuður sem flestir nýta til Íslandsdvalar og að þessu sinni voru erlendu ferðamennirnir 251 talsins í þeim mánuði eða 40 þúsund færri en á sama tíma í fyrra. Og þrátt fyrir að bandarískum ferðamönnum hafi fækkað hér á landi um rúmlega þriðjung í ágúst þá eru þeir ennþá langfjölmennastir í hópi ferðafólks eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan. Í ágúst voru Þjóðverjar næst flestir en fjöldi þeirra stóð nærri í stað milli ára. Í þriðja sæti koma svo Frakkar en þeim fjölgaði umtalsvert í ágúst eða rúmlega eitt þúsund manns. Það jafngildir um 6 prósent vexti.