Á ný reglulegar ferðir milli Íslands og Kraká

Nú fljúga þotur Wizz Air hingað frá fimm pólskum borgum.

Líkt og tíðkast við opnun nýrra flugleiða þá fékk þota Wizz Air blautar móttökur við komuna til landsins frá Kráká. MYND: HILMAR BRAGI BÁRÐARSON / ISAVIA

Pólska borgin Kraká var lengi hluti af leiðakerfi Iceland Express og þangað flugu líka þotur WOW air þegar félagið var að hefja starfsemi. Síðan lögðust ferðirnar þangað af og þó flugsamgöngurnar milli Íslands og Póllands hafi stórbatnað síðustu ár þá hefur Kraká ekki komist á kortið á ný. Þar til í þessari viku þegar Wizz Air fór jómfrúarferð sína þaðan til Íslands.

Í vetur munu svo þotur ungverska lággjaldaflugfélagsins fljúga hingað frá borginni tvisvar í viku. Þar með verður Wizz Air með á boðstólum áætlunarferðir héðan til fimm pólskra borga í allan vetur. Því auk Kraká þá má fá far með félaginu héðan til Varsjár, Gdansk, Katowice og Wroclaw.

Samkvæmt heimasíðu Wizz Air þá eru farmiðarnir til Kraká í ódýrari kantinum næstu vikur. Þannig má fljúga þangað á föstudaginn og heim á mánudaginn fyrir um 22 þúsund krónur. Helgina eftir er farmiðinn á 18 þúsund en greiða þarf aukalega fyrir farangur. Eins er vissara að innrita sig tímanlega fyrir brottför því annars þarf að borga sérstakt innritunargjald á flugstöðinni.