Samfélagsmiðlar

Afkoma Ísganganna batnar milli ára

Framkvæmdastjóri Ísganganna í Langjökli segir það alrangt að gestum þar hafi fækkað um tugi prósenta líkt og haldið hefur verið fram. Hann segir fleiri ferðamenn koma frá Vestur-Evrópu og Asíu en færri frá Bandaríkjunum og Bretlandi.

Frá Ísgöngunum í Langjökli.

Það eru rúm fjögur ár síðan Ísgöngin í Langjökli, stærstu manngerðu ísgöng í Evrópu, voru vígð. Undanfarin misseri hafa verið viðburðarík hjá fyrirtækinu því í ársbyrjun var tilkynnt um sameiningu þess og ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Adventures. Hætt var við kaupin í sumarbyrjun. Túristi lagði nokkrar spurningar um stöðuna fyrir Sigurð Skarphéðinsson, framkvæmdastjóra Ísganganna í Langjökli.

Nú er háannatími ársins liðinn og ljóst að ferðafólki fækkaði í sumar. Endurspeglast það í ásókn í göngin og hvernig gengur reksturinn?
Við höfum fundið fyrir samdrætti frá því í vor sem er takt við minna framboð á flugi til landsins og fækkun ferðamanna. Samdrátturinn er mismikill milli mánaða en ef fyrstu sjö mánuðir ársins eru teknir saman þá nemur fækkun gesta um tíu prósentum. Það er að okkar mati nokkuð vel viðunandi í ljósi aðstæðna. Á fyrri hluta ársins höfum við unnið markvisst að lækkun kostnaðar og hafa þær aðgerðir heppnast mjög vel. Auk þess hafa fjárfestingar síðustu ára, í bættri aðstöðu í Húsafelli og í tækjabúnaði, skilað sér í auknu rekstraröryggi og meiri hagkvæmni. Reksturinn er því að ganga ágætlega þrátt fyrir tekjusamdrátt og er afkoman á fyrstu sjö mánuðum ársins heldur betri en á sama tíma árið 2018.

Eftir að fallið var frá samrunanum við Arctic Adventures kom fram að heimsóknum í göngin hefði fækkað um 60 prósent á fyrstu mánuðum ársins. Sú tala er þá fjarri raunveruleikanum?
Já, sú tala er alröng og óskiljanlegt að fjölmiðlar leiti ekki eftir upplýsingum frá okkur til að fá svona upplýsingar staðfestar í stað þess að birta vitleysuna reglulega eins og um sannleika sé að ræða. Á fyrstu þremur mánuðum ársins var samdráttur í tekjum um tíu prósent sé miðað við árið 2018 en afkoman fyrir sama tíma 25 prósent betri.

Sérðu mikinn mun á því hvaðan gestir ykkar koma í ár m.v. í fyrra og er einhver þjóð sem sækir sérstaklega mikið í göngin? Og eru markaðir þar sem þið eigið mikið inni?
Bandaríkjamenn eru fjölmennastir í þeim hópi gesta sem bóka sig sjálfir þó þeim hafi fækkað nokkuð. Næst fjölmennastir eru Bretar en fjöldi þeirra hefur einnig dregist saman. Á móti kemur að gestum frá Ítalíu, Frakklandi, Hollandi, Belgíu og Spáni hefur fjölgað og það vegur upp á móti. Eins hefur hópum frá Asíu fjölgað og við finnum fyrir miklum áhuga þar.
Við getum hins vegar sótt enn frekar inn á þýska markaðinn því fjöldi Þjóðverja hjá okkur er ekki í neinu hlutfalli við vægi þeirra í ferðamannahópnum hér á landi. Þar spilar væntanlega inn í að leiðsögnin er eingöngu á ensku eins og er.

Hvernig hefur verðskráin þróast?
Við hækkuðum verðið um síðustu áramót í brottfarir að morgni og í hádeginu en það er óbreytt í ferðir seinnipart dags. Þannig reynum við að verðleggja vinsælustu tímasetningarnar aðeins hærra en gefa viðskiptavinum kost á að velja ódýrari valkost á öðrum tímum dagsins. Við höfum einnig aukið tíðni tilboða yfir vetrartímann þegar aðsóknin er mun minni en yfir sumartímann.

En hefur þjónustan tekið breytingum?
Við höfum lagt mikið upp úr vöruþróun og vélsleðaferðir á jökul, með viðkomu í göngunum, er dæmi um viðbót. Einnig ferðir í Ísgöngin sem byrja og enda á Þingvöllum og er ekið yfir Kaldadal. Vegurinn á þeirri leið hefur verið bættur mikið á undanförnum árum en þessi nýjung gerir ferðafólki kleift að tengja saman ferð um Gullna hringinn og heimsókn í Ísgöngin á Langjökli á einum degi.

Söluþóknanir til íslenskra og erlendra bókunarfyrirtækja vega oft þungt í rekstri ferðaþjónustufyrirtækja. Hvernig er staðan hjá ykkur og hver hefur þróunin verið?
Að sjálfsögðu hefur þetta áhrif hjá okkur eins og hjá öðrum aðilum í ferðaþjónustunni. Hins vegar má segja að kúnnar okkar komi úr öllum áttum og við erum ekki háð einstökum aðilum eins og til dæmis hefur heyrst frá sumum hótelum. Það sem menn tala hins vegar ekki um í fjölmiðlum er að það kostar að ná inn viðskiptavinum og öflugar bókunarþjónustur ná til fjölmargra viðskiptavina sem við eigum erfitt með að ná til. Þess vegna er mikilvægt fyrir okkur að vera í samstarfi við þau. Við eyðum háum fjárhæðum í auglýsingar á netinu á hverju ári og það má því segja að við borgum einnig þóknanir fyrir viðskiptavini sem bóka beint. Mestu máli skiptir samt að vera ekki háður fáum stórum aðilum og vera í góðu sambandi við sem flesta endursöluaðila.

Nú vinnur ferðaþjónustufyrirtækið Mountaineers of Iceland að gerð íshella í Langjökli og Arctic Adventures hefur sótt um leyfi fyrir álíka. Ein af ástæðunum fyrir þessum framkvæmdum segja forsvarsmenn fyrirtækjanna vera þá að náttúrulegir hellar hafi bráðnað. Hvaða áhrif hefur þessi bráðnun á íshellinn?
Hellarnir sem þessi fyrirtæki eru að nota eru náttúrulegir og neðarlega í jöklinum, eða í um 700 metra hæð. Þeir eru í raun ekki sambærilegir við okkar íshelli sem er í 1.260 metra hæð og er ekki að bráðna. Okkar hellir er stöðugur allt árið um kring en að sjálfsögðu þarf að viðhalda honum því jökullinn er lifandi og hreyfist á hverju ári.

Nýtt efni

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …

Fyrr á þessu ári kynnti fyrirtækið til sögunnar Precious Honeyglow anansinn sem er aðeins um 600 1000 grömm að þyngd eða um það bil helmingi minni en hefðbundinn ananas.Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að það kappkosti ávallt að uppfylla óskir kaupenda, hvort sem þær eru um sætara bragð, sjálfbærnisjónarmið og nú – stærð. Hið nýja …

Tekjur Icelandair af farþegaflugi námu rúmlega 27 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins og hafa þeir aldrei verið hærri á þessum tíma árs. Sætaframboðið hefur heldur aldrei verið meira en það jókst það um 21 prósent á milli ára og var farþegahópurinn 14 prósent fjölmennari núna en fyrstu þrjá mánuðina í fyrra. Þá stóðu farþegar …

Það seldust 183 þúsund Volvo bílar á fyrsta fjórðungi ársins sem var aukning um 12 prósent frá sama tíma í fyrra. Engu að síður dróst veltan saman um 2 prósent og rekstrarafkoman (Ebit) nam 4,7 milljörðum sænskra króna eða 61 milljarði kr. Það er töluvert undir spá greinenda sem höfðu að jafnaði gert ráð rekstrarhagnaði …