Áhuga­verð tæki­færi í ferða­þjón­ustu fyrir fjár­festa

Jón Karl Ólafsson hefur víðtæka reynslu í ferðaþjónustu og flugrekstri. Í dag er hann stjórnarformaður þeirra sjö ferðaskrifstofa sem áður tilheyrðu Primera Travel Group en þær eru allar til sölu.

Frá Námaskarði. Mynd: Iceland.is

Terra Nova Sól hefur um árabil verið umsvifa­mikil í skipu­lagn­ingu Íslands­ferða og var ein þeirra sjö ferða­skrif­stofa sem heyrðu undir Primera Travel Group. Arion banki tók samsteypuna yfir í sumar og nú stendur yfir sölu­ferli á ferða­skrif­stof­unum sem Jón Karl Ólafsson leiðir sem stjórn­ar­formaður. Túristi lagði nokkrar spurn­ingar fyrir Jón Karl um Terra Nova Sól og íslenska ferða­þjón­ustu.

Hvaða lönd eru ykkar aðal­mark­aðir og finnið þið fyrir brott­hvarfi WOW?
Helstu mark­aðslönd félagsins eru Þýska­land, Frakk­land, Holland, Spánn og í raun flest önnur Evrópu­lönd í einhverjum mæli. Norður-Ameríka hefur farið mest vaxandi undan­farin ár og mestu áhrifin af brott­hvarfi WOW eru á banda­ríska mark­aðnum þar sem mikið af farþegum þeirra bókaði ferðir sérstak­lega hjá okkur. Unnið er að því að komast inn á aðrar dreifi­leiðir á þeim markaði. Áhrif á Evrópu­markað eru minni, en þó má reikna með einhverjum áhrifum á stærstu mörk­uðum félagsins.

Nú hefur gengi krón­unnar verið nokkuð stöðugt í lengri tíma. Á hvaða hátt einfaldar það rekst­urinn?
Gengi krónu hefur mikil áhrif á rekstur félagsins og minni sveiflur þýða í eðli sínu aukinn stöð­ug­leiki. Áhættan er þó enn til staðar og sveiflur á gengi krón­unnar á undan­förnum árum og áratugum benda til þess að menn verða að fara mjög varlega í þessum rekstri. Við leit­umst við að verja þá stöðu sem við höfum með fram­virkum samn­ingum því að það gildir alltaf hið fornkveðna, að það er erfitt að spá — sérstak­lega um fram­tíðina.

Kann­anir sýna að nærri þrír af hverjum fjórum ferða­mönnum ferðast um landið á eigin vegum. Teljið þið að vægi þeirra sem nýta sér þjón­ustu ferða­skrif­stofa eins og Terra Nova eigi eftir að aukast eða dragast saman?
Við gerum ekki ráð fyrir mikilli breyt­ingu á hlut­falli þeirra farþega sem nýta sér þjón­ustu ferða­skrif­stofa í fram­tíð­inni. Það er þó alveg ljóst að ferða­skrif­stofur þurfa að aðlaga þjón­ustu­framboð sitt að breyttri kaup­hegðun á markaði. Verk­efni okkar er að tryggja að kaup­endur átti sig á þeim virð­is­auka sem þjón­usta ferða­skrif­stofa skapar. Það er mest um vert að farþegar finni hjá okkur þær vörur sem þeir eru að leita að hverju sinni og að þær séu þess virði að sækjast eftir. Faglega samsettar og hagkvæmar gæða­ferðir sem er einfalt, þægi­legt og öruggt að bóka hjá Terra Nova Sól.

Nú liggur fyrir að Icelandair Group ætlar að selja Iceland Travel sem er á margan hátt álíka fyrir­tæki og Terra Nova Sól. Er ekki óheppi­legt að þær sölu­tilraunir eigi sér stað á sama tíma og þið reynið að selja eða eru kannski mögu­leikar í samein­ingu þessara fyrir­tækja?
Við teljum það ekki flækja málið neitt þó að fleiri fyrir­tæki verði hugs­an­lega í sölu­ferli. Það eru miklar breyt­ingar á þessum markaði og það eru áhuga­verð tæki­færi að skapast fyrir mögu­lega fjár­festa. Það eru þegar áhuga­samir fjár­festar að skoða fyrir­tækið og það eru eflaust tæki­færi í samein­ingum, sem menn gætu verið að skoða. Við teljum bjarta framtíð í íslenskri ferða­þjón­ustu og að við munum sjá aukn­ingu ferða­manna aftur á næstu árum.

Sjáið þið aukna ásókn í ákveðna lands­hluta?
Við höfum ekki orðið vör við aukna ásókn í ákveðna lands­hluta hér og það er heldur miður, því að það eru ónýtt tæki­færi í flestum lands­hlutum. Við teljum hins vegar að þess sé ekki langt að bíða, að lands­hlut­arnir muni aðgreina sig með það skýrum hætti og að svæð­is­bundin eftir­spurn verði meiri.

Hafa bæði Íslend­ingar og útlend­ingar sýnt kaupum á Terra Nova Sól áhuga?
Áhuga á kaupum eru bæði hér heima og erlendis en þó meiri innan­lands.