Samfélagsmiðlar

Áhugaverð tækifæri í ferðaþjónustu fyrir fjárfesta

Jón Karl Ólafsson hefur víðtæka reynslu í ferðaþjónustu og flugrekstri. Í dag er hann stjórnarformaður þeirra sjö ferðaskrifstofa sem áður tilheyrðu Primera Travel Group en þær eru allar til sölu.

Frá Námaskarði.

Terra Nova Sól hefur um árabil verið umsvifamikil í skipulagningu Íslandsferða og var ein þeirra sjö ferðaskrifstofa sem heyrðu undir Primera Travel Group. Arion banki tók samsteypuna yfir í sumar og nú stendur yfir söluferli á ferðaskrifstofunum sem Jón Karl Ólafsson leiðir sem stjórnarformaður. Túristi lagði nokkrar spurningar fyrir Jón Karl um Terra Nova Sól og íslenska ferðaþjónustu.

Hvaða lönd eru ykkar aðalmarkaðir og finnið þið fyrir brotthvarfi WOW?
Helstu markaðslönd félagsins eru Þýskaland, Frakkland, Holland, Spánn og í raun flest önnur Evrópulönd í einhverjum mæli. Norður-Ameríka hefur farið mest vaxandi undanfarin ár og mestu áhrifin af brotthvarfi WOW eru á bandaríska markaðnum þar sem mikið af farþegum þeirra bókaði ferðir sérstaklega hjá okkur. Unnið er að því að komast inn á aðrar dreifileiðir á þeim markaði. Áhrif á Evrópumarkað eru minni, en þó má reikna með einhverjum áhrifum á stærstu mörkuðum félagsins.

Nú hefur gengi krónunnar verið nokkuð stöðugt í lengri tíma. Á hvaða hátt einfaldar það reksturinn?
Gengi krónu hefur mikil áhrif á rekstur félagsins og minni sveiflur þýða í eðli sínu aukinn stöðugleiki. Áhættan er þó enn til staðar og sveiflur á gengi krónunnar á undanförnum árum og áratugum benda til þess að menn verða að fara mjög varlega í þessum rekstri. Við leitumst við að verja þá stöðu sem við höfum með framvirkum samningum því að það gildir alltaf hið fornkveðna, að það er erfitt að spá – sérstaklega um framtíðina.

Kannanir sýna að nærri þrír af hverjum fjórum ferðamönnum ferðast um landið á eigin vegum. Teljið þið að vægi þeirra sem nýta sér þjónustu ferðaskrifstofa eins og Terra Nova eigi eftir að aukast eða dragast saman?
Við gerum ekki ráð fyrir mikilli breytingu á hlutfalli þeirra farþega sem nýta sér þjónustu ferðaskrifstofa í framtíðinni. Það er þó alveg ljóst að ferðaskrifstofur þurfa að aðlaga þjónustuframboð sitt að breyttri kauphegðun á markaði. Verkefni okkar er að tryggja að kaupendur átti sig á þeim virðisauka sem þjónusta ferðaskrifstofa skapar. Það er mest um vert að farþegar finni hjá okkur þær vörur sem þeir eru að leita að hverju sinni og að þær séu þess virði að sækjast eftir. Faglega samsettar og hagkvæmar gæðaferðir sem er einfalt, þægilegt og öruggt að bóka hjá Terra Nova Sól.

Nú liggur fyrir að Icelandair Group ætlar að selja Iceland Travel sem er á margan hátt álíka fyrirtæki og Terra Nova Sól. Er ekki óheppilegt að þær sölutilraunir eigi sér stað á sama tíma og þið reynið að selja eða eru kannski möguleikar í sameiningu þessara fyrirtækja?
Við teljum það ekki flækja málið neitt þó að fleiri fyrirtæki verði hugsanlega í söluferli. Það eru miklar breytingar á þessum markaði og það eru áhugaverð tækifæri að skapast fyrir mögulega fjárfesta. Það eru þegar áhugasamir fjárfestar að skoða fyrirtækið og það eru eflaust tækifæri í sameiningum, sem menn gætu verið að skoða. Við teljum bjarta framtíð í íslenskri ferðaþjónustu og að við munum sjá aukningu ferðamanna aftur á næstu árum.

Sjáið þið aukna ásókn í ákveðna landshluta?
Við höfum ekki orðið vör við aukna ásókn í ákveðna landshluta hér og það er heldur miður, því að það eru ónýtt tækifæri í flestum landshlutum. Við teljum hins vegar að þess sé ekki langt að bíða, að landshlutarnir muni aðgreina sig með það skýrum hætti og að svæðisbundin eftirspurn verði meiri.

Hafa bæði Íslendingar og útlendingar sýnt kaupum á Terra Nova Sól áhuga?
Áhuga á kaupum eru bæði hér heima og erlendis en þó meiri innanlands.

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …