Annar hver ferðamaður til landsins með Icelandair

Það voru 678 þúsund erlendir ferðamenn sem heimsóttu landið heim í sumar. Miðað við nýjar farþegatölur Icelandair lætur nærri að rétt rúmlega helmingur þeirra hafi flogið til landsins með Icelandair. Sætanýtingin hjá félaginu lækkaði aftur í ágúst.

Mynd: Isavia

Vægi tengifarþega hjá Icelandair hefur lækkað umtalsvert í sumar í takt við aukna áherslu félagsins á farþega á leið til og frá Íslandi. Þessi breyting hefur vafalítið dregið töluvert úr samdrættinum í komum erlendra ferðamanna til Íslands eftir fall WOW air. Á sama tíma má gera ráð fyrir að meðalfargjöldin hjá Icelandair hafi hækkað því samkeppnin í flugi milli Evrópu og N-Ameríku er hörð á meðan hún hefur dregist töluvert saman í Íslandsflugi. Stjórnendur Icelandair, öfugt við kollega þeirra hjá SAS og Norwegian, birta hins vegar ekki skýrar upplýsingar um fargjaldaþróun og því er ekki hægt að sjá þessa þróun svart á hvítu.

„Íslensk ferðaþjónusta hefur notið góðs af auknum farþegafjölda Icelandair í sumar en sá sveigjanleiki sem við höfum í leiðakerfinu gerir okkur kleift að bregðast við breyttum aðstæðum á markaði með jafn skjótum hætti og raun ber vitni. Þessar áherslubreytingar hafa verið til hagsbóta fyrir íslenska ferðaþjónustu,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningu.

Þar kemur jafnframt fram að félagið hafi flogið með um 720 þúsund farþega til Íslands í sumar. Og þar sem farþegar eru taldir á hverjum  fluglegg má segja að þarna hafi verið á ferðinni um 360 þúsund einstaklingar. Til samanburðar flugu héðan 678 þúsund ferðamenn í sumar samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Þar með má á áætla að rétt rúmur helmingur þeirra ferðamanna sem hingað komu, í gegnum Keflavíkurflugvöll í sumar, hafi setið um borð í þotum Icelandair.

Til samanburðar hefur Icelandair staðið undir um tveimur af hverjum þremur brottförum frá Keflavíkurflugvelli eftir fall helsta keppinautarins. Þrátt fyrir brotthvarf WOW þá hefur sætanýtingin hjá Icelandair lækkað síðustu tvo mánuði. Í júlí var ástæðan sögð ójafnvægi í leiðakerfi félagsins sem gerði það að verkum að framboðið milli ferða til Evrópu og N-Ameríku var ekki rétt. Skýringuna á þessu mátti þá rekja að hluta til kyrrsetningar MAX þotanna.

Sætanýtingin lækkaði aftur nú í ágúst og aðspurð segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, í svari til Túrista, að hluta af skýringunni sé ójafnvægi í leiðakerfinu.