Deilir á keppinauta sem fljúga gömlum og þunnskipuðum þotum

Forstjóri easyJet segir ekki hægt að horfa á fluggeirann í heild sinni þegar litið er til losunar gróðurhúsalofttegunda. Icelandair nær aðeins upp í 45. sæti á nýlegum lista Heathrow flugvallar yfir þau flugfélög sem losa minnst.

Flugvél kemur inn til lendingar á Heathrow í London. Mynd: London Heathrow

Farþegar verða sífellt meðvitaðri um umhverfis áhrifin af því að fljúga og því þarf fluggeirinn að endurhugsa stöðu sína. Þetta er mat Johan Lundgren, forstjóra easyJet, sem heldur því jafnframt fram að fólk muni ekki aðeins velja sér ferðamáta út frá losun heldur líka beina viðskiptum sínum til þeirra fyrirtækja sem standa sig betur í að draga úr mengun. Ef hinn sænski Lundgren reynist sannspár að þessu leyti þá er ljóst að easyJet stendur vel að vígi eins og staðan er í dag. Nýleg úttekt á vegum hins virta háskóla, London School of Economics, leiðir nefnilega í ljós að breska lággjaldaflugfélagið stendur sig betur en keppinautarnir í að draga úr mengun. Þannig gæti losun á hvern farþega easyJet á næsta ári orðið um helmingi minni en hjá helstu keppinautunum.

Megin skýringin á þessu, samkvæmt frétt BBC, liggur í ungum flugflota easyJet og hárri sætanýtingu en þotur lággjaldaflugfélaga eru oftar en ekki þéttsetnari en gengur og gerist hjá hefðbundnu flugfélögunum. Þau síðarnefndu eru líka almennt umsvifamikil í vöruflutningum sem eykur eldsneytisþörfina og losun á hvern farþega verður þá hærri.

Forstjóri easyJet segir það þó val flugfélaganna sjálfra að fljúga með færri farþega í hverri ferð, nýta þotur sem væru fimmtán til tuttugu ára gamlar og fjárfesta ekki í nýrri tækni til að draga úr mengun. „Ég mun ekki taka upp hanskann fyrir fluggeirann í heild sinni svo lengi sem þetta heldur áfram,“ lýsti Lundgren yfir á ferðaráðstefnu í sumar samkvæmt frétt The Times. Þar benti hann á að easyJet væri í samkeppni við flugfélög sem losuðu um 25 til 30 prósent meira á hvern farþega.

Í því samhengi má benda á að easyJet hefur verið umsvifamikið í Íslandsflugi frá Bretlandi og Sviss um langt árabil og keppir þar með um hylli farþega við Icelandair á nokkrum flugleiðum. Íslenska flugfélagið kom þó ekki fyrir í fyrrnefndri könnun London School of Economics en stærsti hluti flugflota þess samanstendur af þotum sem eru um tuttugu ára gamlar og sætanýtingin hjá Icelandair hefur ekki verið sérstaklega há.

Hinar nýju og sparneytnari MAX þotur hefðu reyndar staðið undir um fjórðungi af framboði félagsins í sumar og þar með lækkað losun á hvern farþega Icelandair þónokkuð. Sá ávinningur skilar sér hins vegar ekki enda hafa MAX þoturnar verið kyrrsettar frá því miðjan mars og leiguvélarnar, sem fylltu skarð þeirra í sumar, voru af eldri gerðinni líkt og Boeing 757 þoturnar sem félagið á. Losun gróðurhúsalofttegunda hjá Icelandair fór þrátt fyrir aldur þotanna lækkandi á árunum 2014 til 2016 samkvæmt því sem segir á heimasíðu samsteypunnar. Þar er þó ekki að finna upplýsingar um losunina síðustu þrjú ár.

Reglulegar úttektir á vegum Heathrow flugvallar í London sýna aftur á móti að íslenska flugfélagið er nokkuð neðarlega á lista þegar kemur að losun í flugi til og London. Þegar horft er til nituroxíð mengunar þá kemst Icelandair aðeins í 45. sæti yfir þau flugfélög á Heathrow sem menga minnst. Það er þó bót í máli að þotur Icelandair koma betur út úr hávaðamælingum og á síðasta ársfjórðungi var félagið því í 33. sæti á sérstökum umhverfis lista þessarar fjölförnustu flughafnar í Evrópu. Í flugið þangað notar Icelandair lang oftast Boeing 767 breiðþotur en þær eru á bilinu 19 til 21 árs gamlar. Þar sem easyJet flýgur ekki til Heathrow kemur flugfélagið ekki fyrir í úttekt flugvallarins.