Deilir á keppi­nauta sem fljúga gömlum og þunn­skip­uðum þotum

Forstjóri easyJet segir ekki hægt að horfa á fluggeirann í heild sinni þegar litið er til losunar gróðurhúsalofttegunda. Icelandair nær aðeins upp í 45. sæti á nýlegum lista Heathrow flugvallar yfir þau flugfélög sem losa minnst.

Flugvél kemur inn til lendingar á Heathrow í London. Mynd: London Heathrow

Farþegar verða sífellt meðvit­aðri um umhverfis áhrifin af því að fljúga og því þarf flug­geirinn að endur­hugsa stöðu sína. Þetta er mat Johan Lund­gren, forstjóra easyJet, sem heldur því jafn­framt fram að fólk muni ekki aðeins velja sér ferða­máta út frá losun heldur líka beina viðskiptum sínum til þeirra fyrir­tækja sem standa sig betur í að draga úr mengun. Ef hinn sænski Lund­gren reynist sann­spár að þessu leyti þá er ljóst að easyJet stendur vel að vígi eins og staðan er í dag. Nýleg úttekt á vegum hins virta háskóla, London School of Economics, leiðir nefni­lega í ljós að breska lággjalda­flug­fé­lagið stendur sig betur en keppi­naut­arnir í að draga úr mengun. Þannig gæti losun á hvern farþega easyJet á næsta ári orðið um helm­ingi minni en hjá helstu keppi­naut­unum.

Megin skýr­ingin á þessu, samkvæmt frétt BBC, liggur í ungum flug­flota easyJet og hárri sæta­nýt­ingu en þotur lággjalda­flug­fé­laga eru oftar en ekki þétt­setnari en gengur og gerist hjá hefð­bundnu flug­fé­lög­unum. Þau síðar­nefndu eru líka almennt umsvifa­mikil í vöru­flutn­ingum sem eykur eldsneyt­is­þörfina og losun á hvern farþega verður þá hærri.

Forstjóri easyJet segir það þó val flug­fé­lag­anna sjálfra að fljúga með færri farþega í hverri ferð, nýta þotur sem væru fimmtán til tuttugu ára gamlar og fjár­festa ekki í nýrri tækni til að draga úr mengun. „Ég mun ekki taka upp hanskann fyrir flug­geirann í heild sinni svo lengi sem þetta heldur áfram,” lýsti Lund­gren yfir á ferða­ráð­stefnu í sumar samkvæmt frétt The Times. Þar benti hann á að easyJet væri í samkeppni við flug­félög sem losuðu um 25 til 30 prósent meira á hvern farþega.

Í því samhengi má benda á að easyJet hefur verið umsvifa­mikið í Íslands­flugi frá Bretlandi og Sviss um langt árabil og keppir þar með um hylli farþega við Icelandair á nokkrum flug­leiðum. Íslenska flug­fé­lagið kom þó ekki fyrir í fyrr­nefndri könnun London School of Economics en stærsti hluti flug­flota þess saman­stendur af þotum sem eru um tuttugu ára gamlar og sæta­nýt­ingin hjá Icelandair hefur ekki verið sérstak­lega há.

Hinar nýju og spar­neytnari MAX þotur hefðu reyndar staðið undir um fjórð­ungi af fram­boði félagsins í sumar og þar með lækkað losun á hvern farþega Icelandair þónokkuð. Sá ávinn­ingur skilar sér hins vegar ekki enda hafa MAX þoturnar verið kyrr­settar frá því miðjan mars og leigu­vél­arnar, sem fylltu skarð þeirra í sumar, voru af eldri gerð­inni líkt og Boeing 757 þoturnar sem félagið á. Losun gróð­ur­húsaloft­teg­unda hjá Icelandair fór þrátt fyrir aldur þotanna lækk­andi á árunum 2014 til 2016 samkvæmt því sem segir á heima­síðu samsteyp­unnar. Þar er þó ekki að finna upplýs­ingar um losunina síðustu þrjú ár.

Reglu­legar úttektir á vegum Heathrow flug­vallar í London sýna aftur á móti að íslenska flug­fé­lagið er nokkuð neðar­lega á lista þegar kemur að losun í flugi til og London. Þegar horft er til nituroxíð meng­unar þá kemst Icelandair aðeins í 45. sæti yfir þau flug­félög á Heathrow sem menga minnst. Það er þó bót í máli að þotur Icelandair koma betur út úr hávaða­mæl­ingum og á síðasta ársfjórð­ungi var félagið því í 33. sæti á sérstökum umhverfis lista þess­arar fjöl­förn­ustu flug­hafnar í Evrópu. Í flugið þangað notar Icelandair lang oftast Boeing 767 breið­þotur en þær eru á bilinu 19 til 21 árs gamlar. Þar sem easyJet flýgur ekki til Heathrow kemur flug­fé­lagið ekki fyrir í úttekt flug­vall­arins.