Ekki varð af sölu á Arctic Adventures

Eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins hefur verið eftirsótt að undanförnu. Samningaviðræður við mögulegan kaupanda voru langt komnar en þeim var hætt eftir gjaldþrot Thomas Cook í vikubyrjun. Eigendur Arctic Adventures horfa nú til skráningar á hlutabréfamarkað en vinna við þann áfanga var komin af stað áður viðræður við áhugasama fjárfesta hófst.

Mynd: Arctic Adventures

Hann hefur verið þrálátur orðrómurinn um erlent fyrirtæki væri að ganga frá kaupum á ferðaþjónustufyrirtækinu Arctic Adventures. Aðspurður staðfestir Styrmir Þór Bragason, forstjóri og einn af eigendum Arctic Adventures, að söluviðræður við stórt erlent ferðaþjónustufyrirtæki hafi verið á lokametrunum. Hann vill þó ekki gefa upp heiti fyrirtækisins.

„Gjaldþrot Thomas Cook í byrjun vikunnar setti hins vegar strik í reikninginn hjá viðsemjendum okkar á ýmsan hátt og við vorum sammála um að setja viðræðurnar á ís,“ segir Styrmir. Hann bætir því við að eigendur Arctic Adventures hafi ákveðið að byrja þar sem frá var horfið í skráningaferli fyrirtækisins á aðallista Kauphallar Íslands og samið hafi verið við Kviku Banka um að annast það ferli.

„Jafnframt verður áfram unnið að frekari stækkun félagsins með kaupum eða sameiningum við fyrirtæki sem styðja við skráningu sem og breikka vöruframboðið okkar,“ segir Styrmir að lokum.

Arctic Adventures er eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins á sviði afþreyingar og viðskiptavinir þess voru 250 þúsund í fyrra.

 

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista