Fækka ferðum frá Ósló til Íslands

Þotur Norwegian flugfélagsins munu fljúga hingað til lands frá Ósló tvisvar í viku í vetur.

Mynd: Norwegian

Allt frá því að Íslandsflug Norwegian hófst sumarið 2012 þá hafa þotur félagsins flogið til Keflavíkurflugvallar frá Ósló þrjár ferðir í viku. Komandi vetraráætlun gerir hins vegar aðeins ráð fyrir tveimur brottförum, á fimmtudögum og sunnudögum. Túristi hefur óskað eftir skýringum á þessum niðurskurði en ekki fengið. Einnig fást ekki svör við skyndilegum samdrætti í framboði á ferðum félagsins héðan til Spánar í vetur. Engin svör hafa fengist. Auk Norwegian þá bjóða Icelandair og SAS upp á tíðar ferðir milli Íslands og norsku höfuðborgarinnar.

Fjárhagsstaða Norwegian er mjög þröng og biðla stjórnendur þess nú til eigenda skuldabréfa um að veita þeim greiðslufrest á þeim lánum sem eru á gjalddaga í desember nk. Í skiptum fyrir framlengingu lánanna þá býður Norwegian lánardrottnum sínum tryggingar í lendingarleyfum flugfélagsins á Gatwick flugvelli.

Hlutabréfaverð í Norwegian rauk upp um 12 prósent í morgun eftir að skandinavíski bankinn SEB gaf út nýja greiningu þar sem hlutabréfaverð í Norwegian var sagt vanmetið um fjörutíu prósent.