Flokksbræður ekki sammála um varaflugvallagjald

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrum samgönguráðherra, er ekki lengur sannfærður um að leggja sérstakt gjald á farþega í alþjóðaflugi til að standa undir framkvæmdum við varaflugvelli landsins. Hugmyndin að gjaldinu kemur úr skýrslu starfshóps sem Sjálfstæðismaðurinn Njáll Trausti Friðbertsson leiddi og hann hefur ekki breytt um skoðun.

Frá Egilsstaðaflugvelli, einum af varaflugvöllunum fyrir millilandaflug hér á landi. Mynd: Isavia

„Ég get ekki séð að það sé nokkurt vit í því að auka álögur á millilandaflug eins og staðan er í dag,“ sagði Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður umhverfis- og samgöngunefndar, í útvarpsþættinum Sprengisandi á sunnudag. Þar vísaði Jón til sérstaks varaflugvallagjalds sem gert er ráð fyrir í nýrri samgönguáætlun en sú tekjuöflun er meðal þeirra tillagna sem starfshópur samgönguráðherra mælti í ársbyrjun með. Í skýrslu hópsins talað um 100 til 300 króna gjaldi á hvern fluglegg í alþjóðaflugi. Tekjurnar á að nýta til að standa straum af viðhaldi og uppbyggingu varaflugvallanna í Reykjavík, Akureyri og Egilsstöðum.

Formaður þessa starfshóps var þingmaðurinn Njáll Trausti Friðbertsson og hann segist ekki vera sammála flokksbróður sínum um að varaflugvallargjaldið sé ekki lengur valkostur. „Það má vel vera að rétt væri að fresta upptöku þjónustugjalds vegna varaflugvallanna vegna þeirra erfiðleika sem nú eru uppi í fluginu. Það verður hins vegar að vera einhver sýn til lengri tíma hvernig eigi að standa að málum,“ segir Njáll í svari til Túrista.

Hann bætir því við að skoða ætti hvort þeim álögum sem lagðar voru á vegna varaflugvallanna hefði verið skilað til baka. „Þegar varaflugvallagjaldið var langt niður á sínum tíma lækkuðu ekki álögurnar á flugið heldur runnu þær í staðinn í flugstöðina á Keflavíkurflugvelli. Það þarf að vera til stefna og við köstum henni ekki fyrir róða vegna tímabundinna erfiðleika í flugrekstri. Þannig að í sjálfu sér má sækja fjármunina til Isavia og þeir færðir þangað sem þeim var ætlað að fara upprunalega.“

Njáll Trausti bendir jafnframt á að frá því að hætt var við að leggja á varaflugvallagjald árið 2011 þá hafi fjármögnun flugvallakerfisins hrunið. Vísar hann til þess að á árunum 1988 til 2010 hafi að jafnaði verið varið um 1,5 milljarði króna í viðhald og nýframkvæmdir á öðrum flugvöllum en Keflavíkurflugvelli. Sú tala hafi lækkað niður í 363 milljónir á ári.