Flogið til 47 borga í vetur

Aðeins tveir nýir áfangastaðir bætast við flugáætlun Keflavíkurflugvallar í vetur en hins vegar detta þrettán borgir út af dagskránni.

Mynd: Isavia

Ef stefnan er sett út í heim í vetur þá stendur þér til boða reglulegt áætlunarflug til 47 erlendra borga frá Keflavíkurflugvelli. Það er nokkuð minna en síðastliðinn vetur þegar áfangastaðirnir voru 60 talsins. Meðal þeirra borga sem dottnar eru út af vetrardagskrá Keflavíkurflugvallar eru Los Angeles, Mílanó, Portland, Róm, Montreal og Detroit.

Í ofan á lag þá minnkar samkeppnin á mörgum flugleiðum og helsta skýringin á þessari breytingu er brotthvarf WOW air. Einnig munar um að Delta flugfélagið gerir hlé í vetur á áætlunarferðum sínum frá New York, British Airways fækkar ferðunum milli Íslands og London og svo dregur easyJet líka úr tíðni ferða. Á móti kemur að Wizz Air bætir við ferðum hingað því nú vetrarflug milli Íslands og Vilníus í Litháen hluti af vetrardagskrá flugfélagsins og í næstu viku hefst áætlunarflug félagsins milli Íslands og Kraká í Póllandi.

Til viðbótar við millilandaflugið frá Keflavíkurflugvelli þá fljúga flugvélar Air Iceland Connect reglulega frá Reykjavíkurflugvelli til Nuuk og  Kulusuk og til Nerlerit Inaat við Scoresbysund í samstarfi við Norlandair á Akureyri.

Hér fyrir neðan má sjá alla þá áfangastaði sem eru núna á vetrardagskrá Keflavíkurflugavallar en hún hefst í lok október og stendur fram í enda mars. Auk reglulegra ferða til þessara borga þá verða á boðstólum stakar ferðir til ýmissa borga. Með því að slá inn heitir borgar eða lands í leitarlínuna fyrir ofan töfluna þá má sjá hvaða flugfélög fljúga hvert.