Galla­gripir frá Boeing

Allt er þegar þrennt er segir máltækið og fljótlega kemur í ljós hvort stjórnendur Icelandair panti nýjar Boeing þotur í þriðja sinn á þessari öld þrátt fyrir gallana í bæði MAX og Dreamliner flugvélunum.

Fjórar af kyrrsettu MAX þotunum. Mynd: Gunnlaugur Rögnvaldsson

Á næst­unni mun forsvars­fólk Icelandair að taka ákvörðun um hvort það verða flug­vélar frá Airbus eða Boeing sem munu, innan fárra ára, leysa af hólmi Boeing 757 þotur félagsins. Þetta verða þriðju stóru flug­véla­kaup Icelandair á þessari öld. Árið 2012 pantaði félagið sextán Boeing MAX þotur en sjö árum áður tryggði FL-Group, þáver­andi móður­félag Icelandair, sér allt að fimm Dreaml­iner breið­þotur frá banda­ríska flug­véla­fram­leið­and­anum.

Þá stóð til að Icelandair tæki í notkun fyrstu tvær Dreaml­iner þoturnar vorið 2010 og um leið myndu „opnast ótal mögu­leikar í fram­tíð­ar­þróun félagsins,” líkt og það var orðað í tilkynn­ingu. Boeing gat hins vegar ekki staðið við þennan afhend­ing­ar­tíma og í sumar­byrjun 2011 áfram seldi Icelandair pöntun sína á þremur Dreaml­iner þotum til Norwegian. Þetta var hluti af endur­skipu­lagn­ingu Icelandair eftir efna­hags­hrunið.

Norska flug­fé­lagið hafði á þessum tíma­punkti tryggt sér tvær aðrar Dreaml­iner þotur og gerði ráð fyrir þeirri fyrstu haustið 2012. Áfram seinkaði hins vegar fram­leiðsl­unni og það var fyrst um mitt sumar 2013 sem Norwegian fékk sína fyrstu Dreaml­iner farþega­flugvél. Eintökin sem Icelandair hafði keypt á sínum tíma voru svo klár til afhend­ingar á seinni hluta 2013. Rúmum þremur árum seinna en stjórn­endur Icelandair gerðu upphaf­lega ráð fyrir þegar þeir gengu frá kaupum átta árum áður.

Hluti af þessari miklu seinkun skrifast á þá stað­reynd að þær fáu Dreaml­iner þotur sem komnar voru í loftið í ársbyrjun 2013 voru kyrr­settar eftir að vandamál komu upp í rafgeymum vélanna. Kyrr­setn­ingin varði í rúma þrjá mánuði en til saman­burðar þá er núna nærri hálft ár liðið frá því að flug­bannið á Boeing MAX þoturnar var sett á í lok síðasta vetrar. Og enn þá er ekki ljóst hvenær þær fara í loftið en samkvæmt síðasta mati Icelandair þá verður tjón félagsins vegna málsins sautján millj­arðar króna í ár. Þess má geta að stjórn­endur Norwegian eru ennþá í basli með sínar Dreaml­iner þotur, bæði vegna hárrar bilana­tíðni og eins vegna seina­gangs í fram­leiðslu á hreyflum.

En í ljósi vand­ræð­anna með Dreaml­iner og MAX þoturnar þá verður áhuga­vert að sjá hvort forsvars­fólk Icelandair tekur sénsinn og leggur inn þriðju pönt­unina hjá banda­ríska flug­véla­fram­leið­andum á þessari öld. Eða munu þau heldur kaupa eða leigja eldri Airbus þotur, sem nú þegar hafa sannað sig, í stað þess að panta nýfram­leiðslu frá Boeing eða Airbus. Það er alla vega ljóst að þoturnar sem koma í stað Boeing 757 munu verða stór hluti af flug­flota Icelandair. Og í ljósi fyrri reynslu þá gæti það reynst Icelandair dýrt að ganga á ný til samn­inga við Boeing um kaup á flug­vélum sem enn þá eru á teikni­borðinu.