Gera ráð fyrir að fjölga flugferðum til Íslands

Skandinavíska flugfélagið SAS hefur lengi boðið upp á reglulegar ferðir hingað frá Ósló og Kaupmannahöfn. Í sumar bættust við brottfarir frá Stokkhólmi og standa vonir til að þráðurinn verði tekinn upp á ný næsta sumar með enn tíðari ferðum.

Séð yfir Stokkhólm frá Djurgården. Mynd: Henrik Trygg / Ferðamálaráð Stokkhólms

Skandinavíska flugfélagið SAS gerir út frá höfuðborgum skandinavísku þjóðanna þriggja og frá Ósló hafa þotur félagsins flogið til Íslands um langt árabil. Fyrir nokkrum árum síðan bættist svo við heilsárs flug frá Kaupmannahöfn. Stjórnendur SAS hafa þó ekki séð sömu tækifærin í flugi hingað frá Stokkhólmi jafnvel þó að í Svíþjóð búi álíka margir og í Danmörku og Noregi samanlagt.

Sumarið 2012 spreytti félagið sig reyndar á áætlunarferðum hingað frá Stokkhólmi en ekki varð framhald á því fyrr en nú í sumar. Þá flugu þotur SAS hingað tvisvar í viku frá lokum júní og fra í enda ágúst. Næsta sumar er von á viðbót því svari frá SAS, við fyrirspurn Túrista, segir að útlit sé fyrir að framhald verði á Íslandsfluginu frá Stokkhólmi enda hafi það fengið góðar viðtökur. Í svarinu er þó tekið fram að sumaráætlun næsta árs verði fyrst kynnt í næsta mánuði og því liggi ekki fyrir endanleg niðurstaða.

Í vetur verður Icelandair eitt um áætlunarflug milli Íslands og Stokkhólms eins og staðan er í dag.