Hræringar hjá ferðaskrifstofum

Heimsferðir eru til sölu, framkvæmdastjóraskipti hjá Vita og eigendur Gaman-ferða eru komnir með nýja ferðaskrifstofu. Hvað sem á gengur verður Icelandair áfram langstærsti ferðasali landsins.

strond nikos zacharoulis
Sala á sólarlandaferðum er stór hluti af starfsemi ferðaskrifstofanna. Mynd: Nikos Zacharoulis / Unsplash

Það tíðkast ekki víða að flugfélög reki umsvifamiklar ferðaskrifstofur. Sú staðreynd kann að vera megin skýringin á því að í ársbyrjun 2006 ákvað stjórn FL-Group, þáverandi móðurfélags Icelandair, að selja Ferðaskrifstofu Íslands, sem rak Úrval-Útsýn og Plúsferðir. Kaupendurnir voru eigendur Sumarferða. Aðeins tveimur árum síðar ákváðu hins vegar nýir stjórnendur Icelandair að hasla sér völl á ný í sölu á pakkaferðum til Íslendinga og stofnuðu ferðaskrifstofuna Vita sem þá fór í samkeppni við þau fyrirtæki sem fyrir voru á markaðnum. Í verkið var ráðið Hörður Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Ferðaskrifstofu Íslands og leiddi hann uppbyggingu Vita auk Iceland Travel sem sérhæfir sig í mótttöku erlendra ferðamanna.

Nú í sumarbyrjun hætti Hörður hins vegar sem framkvæmdastjóri Iceland Travel og við starfi hans tók Björn Víglundsson. Á sama tíma hófst söluferli fyrirtækisins en ekki mun standa til að selja Vita út úr Icelandair Group. Hörður hélt áfram um stjórnartaumana í Vita en í gær tilkynnti Icelandair Group að nú tæki Þráinn Vigfússon við. Hann hefur starfað við hlið Harðar sem fjármálastjóri Vita og Iceland Travel síðastliðinn áratug.

Vita er í dag ein af þremur umsvifamestu ferðaskrifstofum landsins þegar kemur að skipulagningu utanlandsferða fyrir Íslendinga. Hinar eru Ferðaskrifstofa Íslands og Heimsferðir. Sú fyrrnefnda er í eigu Pálma Haraldssonar en Arion banki tók nýverið Heimsferðir yfir. Bankinn leitar nú tilboða í fyrirtækið og sex aðrar norrænar ferðaskrifstofur sem áður tilheyrðu Primera Travel Group. Samsteypan var í eigu Andra Más Ingólfssonar en faðir hans, Ingólfur Guðbrandsson, stofnaði Útsýn árið 1955. Þá ferðaskrifstofu keypti Icelandair árið 1989 sem meirihlutaeigandi í Úrval. Ári síðar tók fyrrnefndur Hörður Gunnarsson við sem framkvæmdastjóri sameinaðrar ferðaskrifstofu Úrval-Útsýn. Sextán árum síðan var hún svo seld út úr Icelandair samsteypunni líkt og fyrr segir.

Í ljósi þess að í dag eru Heimsferðir til sölu og Icelandair Group er að draga úr umsvifum sínum, t.d. í rekstri hótela og ferðaskrifstofa, þá er ekki útilokað að framundan sé uppstokkun á þessum hluta markaðarins. Á honum hafa þrjár stærstu ferðaskrifstofurnar verið fyrirferðamiklar í samkeppni við fjölda smærri skrifstofa. Ein þeirra var Gaman ferðir en stjórnendur hennar skiluðu inn ferðaskrifstofuleyfi í vor í framhaldi af gjaldþroti WOW air. Rúmlega eitt þúsund kröfur frá viðskiptavinum fyrirtækisins bárust Ferðamálastofu, sem hefur eftirlit með starfsemi og tryggingum ferðaskrifstofa, í kjölfarið og vonir standa til að ljúka þeirri vinnu í þessum mánuði. Í millitíðinni hafa stofnendur Gaman ferða sett af stað nýja ferðaskrifstofu sem ber heitið Komdu með.

En þrátt fyrir að Íslendingum á faraldsfæti standi til boða þjónusta fjöldmargra ferðaskrifstofa þá eru það líklega flugfélögin sjálf og bókunarsíður eins og Booking.com sem fá stærsta hluta af þeim fjármunum sem Íslendingar leggja í kaup á ferðum út í heim. Og í ljósi þess að Icelandair stendur nú fyrir um tveimur af hverjum þremur brottförum frá Keflavíkurflugvelli og á eina af þremur stærstu ferðaskrifstofum landsins þá er fyrirtækið, nú sem fyrr, langstærsti ferðasali landsins.

Leiðrétt: Í upphaflegu útgáfu fréttarinnar sagði að Gaman ferðir hefðu orðið gjaldþrota. Hið rétta er að forsvarsmenn ferðaskrifstofunnar skiluðu inn ferðaskrifstofuleyfi til Ferðamálastofu og hættu rekstri í kjölfar gjaldþrots WOW air.  Ferðaskrifstofan fór ekki í þrot.