Icelandair app í loftið

Öfugt við mörg flugfélög þá hefur Icelandair ekki boðið upp á sérstakt snjallsímaforrit. Á því hefur nú verið gerð breyting en forritið er þó ennþá aðeins aðgengilegt í Finnlandi.

Icelandair appið. Skjámynd: App store

Af þeim flugfélögum sem fljúga allt árið um kring frá Keflavíkurflugvelli þá hefur Icelandair verið það eina sem ekki hefur gefið út sérstakt síma app. WOW air hleypti þess háttar af stokkunum fyrir þremur árum og nú í júlí síðastliðnum setti Icelandair sitt í loftið. Það er reyndar aðeins á boðstólum fyrir finnska símnotendur eins og staðan er í dag. Ekki hafa fengist upplýsingar um hvenær forritið verður aðgengilegt fyrir utan Finnland.

Í tilkynningu á finnskri síðu Icelandair segir að með nýja appinu sé hægt að panta farmiða, innrita sig í flug og nálgast upplýsingar um inneign á vildarpunktum. Einnig geta farþegar nýtt sér þjónustuna til að tryggja sér ákveðin sæti um borð, pantað veitingar og varning í Saga Shop og boðið í betri sæti á Saga Class.