Icelandair skiptir um auglýsingastofu

Áratuga löngu samstarfi Icelandair og Íslensku auglýsingastofunnar er lokið. Hugmyndir að kynningarherferð í tengslum við endurkomu MAX þotanna voru ekki meðal þeirra verkefna sem flugfélagið lagði fyrir sérfræðinga þeirra auglýsingastofa sem buðu í viðskiptin.

Ein af Boeing MAX þotum Icelandair. Mynd: Boeing

Icelandair er einn allra stærsti auglýsandi hér á landi og hefur því verið eftirsóttur viðskiptavinur meðal íslenskra auglýsingastofa. Flugfélagið hefur hins vegar haldið tryggð við Íslensku auglýsingastofuna í rúma þrjá áratugi og endurnýjuðu fyrirtækin síðast samning sinn snemma árs 2016. Undanfarið hefur Icelandair hins vegar leitað tilboða og hugmynda hjá fleirum auglýsingastofum og niðurstaðan er sú að markaðsfólk Icelandair hefur ákveðið að söðla um. „Já, eftir langt og farsælt samstarf við Íslensku ákváðum við að endurskoða þessi mál,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, aðspurð um breytinguna. Og hún staðfestir að eftir nokkurra mánaða ferli hafi verið ákveðið að ganga til samninga við Hvíta húsið.

Gísli S. Brynjólfsson, sem tók við sem markaðsstjóri Icelandair í vor, var áður framkvæmdastjóri Hvíta hússins og einn af eigendum auglýsingastofunnar. Samkvæmt heimildum Túrista þá hafa viðskipti Icelandair við Íslensku auglýsingastofuna numið vel á annað hundrað milljónum á ári.

Gera má ráð fyrir að ein fyrsta kynningarherferð Hvíta hússins fyrir Icelandair snúist um að skapa traust farþega á hinum kyrrsettu MAX þotum félagsins. Ásdís segir þó að sérfræðingar auglýsingastofanna, sem buðu í viðskipti Icelandair, hafi ekki verið beðnir um hugmyndir varðandi endurkomu MAX þotanna. En núverandi flugáætlun Icelandair gerir ráð fyrir að þoturnar fari í loftið á ný í ársbyrjun.