Icelandair verður þá ekki eitt um Amer­íkuflug í vetur

Forsvarsfólk hins endurreista WOW air ætla í byrjun að einbeita sér að ferðum milli Íslands og Washington. Þar með fær Icelandair á ný samkeppni í flugi milli Íslands og N-Ameríku.

Ef af áformum nýjan WOW verður þá mun Icelandair ekki sitja eitt að áætlunarflugi milli Íslands og Bandaríkjanna í vetur. Mynd: NeONBRAND / Unsplash

Síðustu ár hafa þotur á Delta, Icelandair og WOW air flogið allan ársins hring milli Íslands og Banda­ríkj­anna. Stuttu eftir gjald­þrot WOW kom hins vegar á daginn að stjórn­endur Delta ætluðu sér ekki lengur að halda úti vetr­arflugi hingað til lands og því stefndi í að Icelandair sæti eitt að banda­ríska mark­aðnum fram á næsta vor. Í gær tilkynnti hins vegar Michele Roosevelt Edwards að hún og viðskipta­fé­lagar hennar ætluðu að endur­reisa WOW air og hefja flug til Banda­ríkj­anna strax í lok næsta mánaðar.

Fyrsti áfanga­stað­urinn, og reyndar sá eini sem Edwards vildi nefna, var Dulles flug­völlur skammt frá Washington borg. Þangað verður flogið daglega samkvæmt því sem kom fram í viðtali hennar við Stöð 2. Stefnt er að því að sala á farmiðum hefjist í næstu viku en ljóst er að tíminn er knappur enda aðeins um átta vikur í fyrsta flug. Þessi stutti fyrir­vari og sú stað­reynd að forsvars­menn  nýja WOW air ætla í loftið í byrjun vetrar vekur líka athygli enda er rekstur flug­fé­laga alla jafna mun erfiðari á þeim árstíma. Jómfrú­ar­ferð gamla WOW air var til að mynda í sumar­byrjun og Iceland Express fór í loftið á sínum tíma í lok febrúar.

Sem fyrr segir er stefnt að daglegum ferðum á vegum nýja WOW milli Íslands og Dulles flug­vallar í Washington. Þangað munu þotur Icelandair líka fljúga á degi hverjum í vetur en heima­höfn gamla WOW air, við banda­rísku höfuð­borgina, var á Baltimore-Washington flug­velli. Í nóvember í fyrra flaug félagið þangað átta sinnum í viku og með rétt um 11 þúsund farþega. Sæta­nýt­ingin var 83 prósent samkvæmt tölum frá banda­rískum flug­mála­yf­ir­völdum.

Hafa ber í huga að rúmur helm­ingur farþega WOW air voru tengifar­þegar en ekki liggur hvert hlut­fallið var í fluginu til og frá banda­rísku höfuð­borg­inni. En í ljósi þess að hið nýja WOW mun ekki bjóða upp á Evrópuflug þá takmarkar það vafa­lítið eftir­spurn eftir flug­miðum félagsins fyrst um sinn.

Líkt og Túristi greindi frá í gær þá segjast flug­mála­yf­ir­völd í Washington aðeins hafa átt einn fund með forsvars­fólki nýja WOW air. Edwards talaði hins vegar um á fund­inum í gær að flug­fé­lagið myndi reka starfs­stöðvar hér á landi og við Dulles flug­völl. Og í viðtali við Stöð 2 sagði hún jafn­framt að ætlunin væri að bjóða upp á innan­lands­flug vest­an­hafs.

Túristi bíður svara frá íslenskum samverka­mönnum Edwards, þeim Páli Ágústi Ólafs­syni og Gunnari Steini Páls­syni, um hver staðan er á opnun starfs­stöðvar á Dulles flug­velli. Eins er beðið upplýs­inga um heiti flugrek­andans sem fljúga á fyrir hið nýja WOW air. En þess ber að geta að Túristi hafði ekki tök á því að sækja blaða­manna­fundinn í gær og fékk ekki svar við beiðni um að ræða við Edwards í síma.