Icelandair verður þá ekki eitt um Ameríkuflug í vetur

Forsvarsfólk hins endurreista WOW air ætla í byrjun að einbeita sér að ferðum milli Íslands og Washington. Þar með fær Icelandair á ný samkeppni í flugi milli Íslands og N-Ameríku.

Ef af áformum nýjan WOW verður þá mun Icelandair ekki sitja eitt að áætlunarflugi milli Íslands og Bandaríkjanna í vetur. Mynd: NeONBRAND / Unsplash

Síðustu ár hafa þotur á Delta, Icelandair og WOW air flogið allan ársins hring milli Íslands og Bandaríkjanna. Stuttu eftir gjaldþrot WOW kom hins vegar á daginn að stjórnendur Delta ætluðu sér ekki lengur að halda úti vetrarflugi hingað til lands og því stefndi í að Icelandair sæti eitt að bandaríska markaðnum fram á næsta vor. Í gær tilkynnti hins vegar Michele Roosevelt Edwards að hún og viðskiptafélagar hennar ætluðu að endurreisa WOW air og hefja flug til Bandaríkjanna strax í lok næsta mánaðar.

Fyrsti áfangastaðurinn, og reyndar sá eini sem Edwards vildi nefna, var Dulles flugvöllur skammt frá Washington borg. Þangað verður flogið daglega samkvæmt því sem kom fram í viðtali hennar við Stöð 2. Stefnt er að því að sala á farmiðum hefjist í næstu viku en ljóst er að tíminn er knappur enda aðeins um átta vikur í fyrsta flug. Þessi stutti fyrirvari og sú staðreynd að forsvarsmenn  nýja WOW air ætla í loftið í byrjun vetrar vekur líka athygli enda er rekstur flugfélaga alla jafna mun erfiðari á þeim árstíma. Jómfrúarferð gamla WOW air var til að mynda í sumarbyrjun og Iceland Express fór í loftið á sínum tíma í lok febrúar.

Sem fyrr segir er stefnt að daglegum ferðum á vegum nýja WOW milli Íslands og Dulles flugvallar í Washington. Þangað munu þotur Icelandair líka fljúga á degi hverjum í vetur en heimahöfn gamla WOW air, við bandarísku höfuðborgina, var á Baltimore-Washington flugvelli. Í nóvember í fyrra flaug félagið þangað átta sinnum í viku og með rétt um 11 þúsund farþega. Sætanýtingin var 83 prósent samkvæmt tölum frá bandarískum flugmálayfirvöldum.

Hafa ber í huga að rúmur helmingur farþega WOW air voru tengifarþegar en ekki liggur hvert hlutfallið var í fluginu til og frá bandarísku höfuðborginni. En í ljósi þess að hið nýja WOW mun ekki bjóða upp á Evrópuflug þá takmarkar það vafalítið eftirspurn eftir flugmiðum félagsins fyrst um sinn.

Líkt og Túristi greindi frá í gær þá segjast flugmálayfirvöld í Washington aðeins hafa átt einn fund með forsvarsfólki nýja WOW air. Edwards talaði hins vegar um á fundinum í gær að flugfélagið myndi reka starfsstöðvar hér á landi og við Dulles flugvöll. Og í viðtali við Stöð 2 sagði hún jafnframt að ætlunin væri að bjóða upp á innanlandsflug vestanhafs.

Túristi bíður svara frá íslenskum samverkamönnum Edwards, þeim Páli Ágústi Ólafssyni og Gunnari Steini Pálssyni, um hver staðan er á opnun starfsstöðvar á Dulles flugvelli. Eins er beðið upplýsinga um heiti flugrekandans sem fljúga á fyrir hið nýja WOW air. En þess ber að geta að Túristi hafði ekki tök á því að sækja blaðamannafundinn í gær og fékk ekki svar við beiðni um að ræða við Edwards í síma.