Jafn margir Danir skiptu með sér miklu fleiri hótelnóttum

Þó fjöldi danskra ferðamanna hér á landi hafi staðið í stað í ágúst þá fjölgaði gistingum þeirra á íslenskum hótelum um sjötíu prósent.

Frá Exeter hótelinu við Tryggvagötu í Reykjavík. Mynd: Keahótelin

Það eru ekki alltaf sterk tengsl á milli fjölda ferðamanna frá ákveðnu landi og kaupum þessarar sömu þjóðar á hótelgistingu. Þetta er til að mynda áberandi í nýbirtum gistináttatölum Hagstofunnar fyrir ágúst því þar kemur fram töluverður munur á hlutfallslegri breytingu á fjölda hótelnátta og hins vegar földa ferðamanna, sem Ferðamálastofa telur. Í ágúst fækkaði brottförum erlendra ferðamanna um 13,5 prósent á meðan hótelnóttum útlendinga fjölgaði um tvo af hundraði.

Mesta muninn, meðal fjölmennustu þjóðanna, var að þessu sinni að finna hjá Dönum. Samkvæmt tölum Hagstofunnar þá bókuðu þeir sjötíu prósent fleiri hótelnætur í ágúst í samanburði við sama mánuð í fyrra. Engu að síður stóð fjöldi danskra ferðamanna í stað. Fleiri dæmi eru um að þessar tvær stærðir hafi þróast á mismunandi hátt meðal þjóða eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan. Þar er borin saman hlutfallsleg þróun hótelnótta og fjölda ferðamanna frá þeim þjóðum sem bóka flestar hótelgistingar. Aðrar tegundir gistingar er ekki hægt að brjóta niður eftir þjóðum fyrr en í ársuppgjöri Hagstofunnar sem birt verður í byrjun næsta árs.

Eins og sjá má þá hefur verið töluverður munur á hótelnóttum útlendinga hér á landi í ágúst og hins vegar fjölda ferðamanna síðustu þrjú ár. Í ágúst 2015 og 2016 hélst þróunin hins vegar í hendur.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista