Kaliforníuflug heyrir sögunni til

Í annað sinn á þessari öld hættir Icelandair flugi til San Francisco. Kansas City hverfur einnig úr leiðakerfi félagsins eftir aðeins tvö sumur.

Frá San Francisco Mynd: Chris Lawton / Unsplash

Á árunum fyrir hrun flugu þotur Icelandair til San Francisco yfir sumarmánuðina. Félagið tók svo aftur upp þráðinn þar í borg í sumarbyrjun í fyrra og var þá í samkeppni við WOW air sem hafði sinnt flugi til San Francisco allt árið um kring frá 2016. Þrátt fyrir brotthvarf keppinautsins þá sjá stjórnendur Icelandair samt ekki tækifæri í að halda áfram flugi til borgarinnar. Í tilkynningu frá flugfélaginu segir að ein af fjórum Boeing 767 breiðþotum félagsins, sem nýtt var í flug til San Fransisco, verði núna notuð með „arðbærari hætti“ í leiðakerfinu.

Þá sex mánuði sem Icelandair flaug til San Francisco í fyrra þá nýttu 46.956 farþegar sér ferðir félagsins en til samanburðar þá flutti WOW 126.752 farþega til og frá borginni alla tólf mánuði síðasta árs samkvæmt upplýsingum frá bandarískum flugmálayfirvöldum. Að jafnaði voru um 77 af hverjum hundrað sætum skipuð farþegum hjá Icelandair en hlutfallið var 82 prósent hjá WOW air.

Ekki liggur fyrir hversu hátt hlutfall skiptifarþega var en hafa ber í huga að farþegar eru taldir á hverjum fluglegg. Sá sem fer fram og tilbaka er því tvítalinn. Í ljósi fjöldans þá má þó gera ráð fyrir að brotthvarf beinnar tengingar við San Francisco sé töluverður missir fyrir íslenska ferðaþjónustu. Í ofan á lag þá hvarf flug til Los Angeles af dagskrá WOW air í lok síðasta árs. Þar með eru þessar tvær fjölmenntustu borgir Kaliforníu ekki lengur hluti af leiðakerfi Keflavíkurflugvallar.

Til viðbótar við niðurfellingu á flugi til San Francisco þá ætla stjórnendur Icelandair einnig að hætta flugi til Kansas City. Jómfrúarferð félagsins þangað var farin í lok maí í fyrra og var Icelandair eina evrópska flugfélagið sem flaug til borgarinnar. Koma íslenska félagsins þangað vakti því töluverða athygli og fékk flugið töluverðan fjárhagslegan styrk frá heimamönnum. Þannig bauðst viðskiptaráð borgarinnar til að greiða upp tap af flugleiðinni fyrsta árið ef Icelandair gæti sýnt fram á slíkt samkvæmt frétt Kansas City Star.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista