Leggja af flug milli Íslands og Sviss

Þotur easyJet munu ekki fljúga hingað til lands frá Basel og Genf á næsta ári.

Frá Basel. Mynd: Ferðamálaráð Basel

Fyrir fimm árum síðan hóf breska lággjalda­flug­fé­lagið easyJet að bjóða upp á Íslands­flug frá Basel og Genf í Sviss. Í kjöl­farið fjölgaði sviss­neskum ferða­mönnum hér á landi umtals­vert og var það líklega kærkomin viðbót fyrir ferða­þjón­ustuna því korta­velta á hvern Sviss­lending er mikil í saman­burði við flestar aðrar þjóðir.

Síðustu ár hefur easyJet svo haldið úti reglu­legu flugi hingað frá borg­unum tveimur en þó gert hlé á ferð­unum yfir hávet­urinn.

Íslands­flug frá Sviss er hins vegar ekki hluti af sumaráætlun easyJet fyrir næsta ár sem kynnt var í gær. Túristi óskaði í fram­haldi eftir upplýs­ingum frá flug­fé­laginu á þessum breyt­ingum og í svari frá flug­fé­laginu er stað­fest að flug til „Reykja­víkur” frá Genf og Basel verði ekki á dagskrá næsta sumar. Í svarinu segir jafn­framt að leiða­kerfi flug­fé­lagsins taki mið af þeim flug­leiðum sem njóta mestrar hylli meðal viðskipta­vina easyJet.

Auk easyJet þá flýgur Icelandair reglu­lega til Sviss. Þotur félagsins fljúga allt árið um kring til Zurich og til Genfar yfir sumar­mán­uðina. Fyrstu átta mánuði ársins komu hingað um 20 þúsund sviss­neskir ferða­menn sem er á pari við sama tíma í fyrra.