Leggja af flug milli Íslands og Sviss

Þotur easyJet munu ekki fljúga hingað til lands frá Basel og Genf á næsta ári.

Frá Basel. Mynd: Ferðamálaráð Basel

Fyrir fimm árum síðan hóf breska lággjaldaflugfélagið easyJet að bjóða upp á Íslandsflug frá Basel og Genf í Sviss. Í kjölfarið fjölgaði svissneskum ferðamönnum hér á landi umtalsvert og var það líklega kærkomin viðbót fyrir ferðaþjónustuna því kortavelta á hvern Svisslending er mikil í samanburði við flestar aðrar þjóðir.

Síðustu ár hefur easyJet svo haldið úti reglulegu flugi hingað frá borgunum tveimur en þó gert hlé á ferðunum yfir háveturinn.

Íslandsflug frá Sviss er hins vegar ekki hluti af sumaráætlun easyJet fyrir næsta ár sem kynnt var í gær. Túristi óskaði í framhaldi eftir upplýsingum frá flugfélaginu á þessum breytingum og í svari frá flugfélaginu er staðfest að flug til „Reykjavíkur“ frá Genf og Basel verði ekki á dagskrá næsta sumar. Í svarinu segir jafnframt að leiðakerfi flugfélagsins taki mið af þeim flugleiðum sem njóta mestrar hylli meðal viðskiptavina easyJet.

Auk easyJet þá flýgur Icelandair reglulega til Sviss. Þotur félagsins fljúga allt árið um kring til Zurich og til Genfar yfir sumarmánuðina. Fyrstu átta mánuði ársins komu hingað um 20 þúsund svissneskir ferðamenn sem er á pari við sama tíma í fyrra.