Nær endalaus útsala á sólarlandaflugi

Af heimasíðum ferðaskrifstofanna að dæma þá er töluvert til af lausum sætum til Spánar á næstunni.

Frá Alicante. Mynd: Cale Weaver / Unsplash

Ferðaskrifstofan Heimsferðir, sem nú er í eigu Arion banka, auglýsti fyrr í sumar útsölu á flugmiðum sem ljúka átti 29. júlí sl. Og þó núna séu fimm vikur liðnar frá boðuðum útsölulokum þá er tilboðið ennþá auglýst á heimasíðu ferðaskrifstofunnar. Þar er því hægt að bóka mjög ódýra farmiða út í heim með stuttum fyrirvara. Þannig kosta sæti í brottfarir til Tenerife, Alicante og Malaga eftir helgi, og heim aftur í þarnæstu viku, aðeins 29.900 krónur.

Heimsferðir eru þó ekki eina ferðaskrifstofan sem er með svona ódýra farmiða til Spánar á boðstólum. Hjá Plúsferðum má til að mynda fá flug til Las Palmas á Kanarí á morgun, og heim aftur viku síðar, á 27.900 kr. Flugmiði til Tenerife og heim aftur er álíka ódýr en lagt er í hann á miðvikudag.

Þeir sem vilja heldur bóka pakkaferðir þar sem gisting er innifalin geta svo fundið töluvert af tilboðum hjá stærstu ferðaskrifstofunum, þ.e. Heimsferðum, Úrval-Útsýn og Vita.