Nærri helmingi færri sváfu í bílnum

Gistinætur útlendinga í húsbílum, tjöldum eða hjólhýsum utan gjaldskyldra tjaldsvæða fækkaði verulega saman í sumar. Einnig hefur orðið verulegur samdráttur hjá Airbnb.

island vegur ferdinand stohr
Mynd: Ferdinand Stohr / Unsplash

Heildarfjöldi greiddra gistinátta í ágúst dróst saman um þrjú prósent milli ára og kom sú fækkun helst fram í gistinóttum sem seldar voru í gegnum gistimiðlanir eins og Airbnb og Homeaway. Í þeim flokki nam fækkunin sautján prósent í síðasta mánuði samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Þegar litið er til sumarmánaðanna þriggja þá var samdrátturinn hjá Airbnb og álíka gistimiðlunum um ellefu prósent.

Niðursveiflan nam hins vegar 45 prósentum þegar horft er til gistinótta í húsbílum, tjöldum, tjaldvögnum eða hjólhýsum utan gjaldskyldra tjaldsvæða. En mat Hagstofunnar á gistináttafjölda hjá Airbnb og bílaleigum, sem leigja bíla með svefnaðstöðu, byggir á virðisaukaskattskyldri veltu þessara fyrirtækja. Þess ber að geta að gistináttatölur fyrir árið í ár eru birtar af Hagstofunni til bráðabirgða.


Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista