Nokkuð óvænt viðvörun til flugfarþega

Nú í haust eru farþegar á leið í morgunflug frá Keflavíkurflugvelli beðnir um að mæta fyrr en vanalega til að komast hjá langri bið í Leifsstöð. Engu að síður er ferðafjöldinn álíka og í fyrra.

kef taska 860
Mynd: Isavia

Þrátt fyrir brotthvarf WOW air þá telja stjórnendur Keflavíkurflugvallar stefna í lengri biðtíma í innritun og öryggisleit í morgunsárið nú í september og október. „Ástæða þess að álag verður á þessu tímabili er að breyting hefur orðið á dreifingu ferða flugfélaga og hafa ferðir sem áður voru áætlaðar seinna um morguninn verið færðar í þennan fyrsta brottfararhluta dagsins,“ segir í tilkynningu frá Isavia. Ekkert flugfélag er sérstaklega tilgreint en í ljósi þess að Icelandair er eiginlega eitt um morgun traffíkina frá Keflavíkurflugvelli þá má ljóst vera að þarna er vísað til breytinga á flugáætlun Icelandair.

Samkvæmt samanburði Túrista á fjöldi morgunbrottfara hjá Icelandair næstu fimm daga þá mun félagið standa fyrir að jafnaði tuttugu og tveimur brottförum á dag í stað tuttugu á sama tíma í fyrra. Mest er viðbótin á morgun mánudag og á miðvikudaginn. Hina dagana ætti álagið að vera það sama og í fyrra. Þessi viðvörun frá Isavia er þá mögulega vísbending um hversu litlir möguleikar eru fyrir Icelandair að bæta við ferðum í morgunsárið en í sumar hefur félagið boðið upp á brottfarir á hefðbundnum tímum milli klukkan 7 og hálf níu og svo aftur milli kl. 10 og 11.

Seinni brottfarartímarnir voru á dagskrá fram í miðjan september en núna eru bara fyrri tímarnir í boði. Og þar með þarf að biðja farþega um að mæta að minnsta kosti tveimur og hálfum klukkutíma fyrir brottför til að komast hjá aukinni bið í innritun og öryggisleit.