Norwegian biður um greiðslufrest

Stjórnendur norska flugfélagsins ætla að bjóða lánardrottnum tryggingar í lendingarleyfum á Gatwick flugvelli gegn því að afborgunum á risalánum verði seinkað.

Mynd: Norwegian

Norwegian flugfélagið þarf að standa skil á tug milljarða skuldum í lok þess ára og aftur á því næsta. Og segja má að norska fjölmiðlar fylgist grannt með því hvernig stjórnendum Norwegian gangi að safna fyrir uppgjörinu við lánardrottna. Nýverið seldi félagið hlut sinn í Norwegian bankanum en hagnaðurinn af þeirri sölu dugar ekki nema fyrir hluta af skuldinni og boðaðar sparnaðaraðgerðir brúa heldur ekki bilið. Í ofan á lag þá hefur MAX krísan kostað félagið skildinginn og það er sífelldur vandræðagangur á Dreamliner þotunum meðal annars vegna drátta á afhendingu hreyfla.

Af þessum sökum þá biðla nú stjórnendur Norwegian til lánardrottna og óska eftir greiðslufresti í skiptum fyrir tryggingar í lendingarleyfum flugfélagsins á Gatwick flugvelli. Samkvæmt óháðu mati sem Norwegian hefur látið gera þá er virði þessara leyfa um 38 milljarðar íslenskra króna. Verði þessu tilboði tekið af lánardrottnum þá fá stjórnendur Norwegian kærkomið andrými því eins og segir í tilkynningu frá félaginu nú í morgunsárið þá myndi greiðslufrestur tryggja góðan rekstur og bæta lausafjárstöðuna umtalsvert.

Sem fyrr segir er um að ræða tvö ólík lán. Fyrri skuldin er upp á 34 milljarða króna og er á gjalddaga nú í desember. Ef eigendur skuldabréfanna sættast á tilboðið sem lagt var fram nú í morgun þá verður uppgjörinu frestað fram í nóvember 2021. Í ágúst á næsta ári ber Norwegian svo að greiða upp 12 milljarða króna lán en stjórnendur flugfélagsins biðja nú um frest fram í febrúar árið 2022.

Norwegian er nokkuð stórtækt í Íslandsflugi og sérstaklega þegar kemur að ferðum héðan til Spánar. Í vetur mun félagið til að mynda halda úti áætlunarferðum frá Keflavíkurflugvelli til Tenerife, Barcelona, Las Palmas, Alicante og Madríd. Auk þess býður flugfélagið upp á reglulegar ferðir héðan til Ósló og Bergen.