Norwegian slapp fyrir horn

Eigendur skuldabréf í Norwegian samþykktu að seinka uppgjöri á stórum lánum sem voru á gjalddaga í desember og næsta sumar.

norwegian velar860
Mynd: Norwegian

Rétt í þessu var að ljúka fundi eigenda skuldabréfa í Norwegian þar sem samþykki fékkst fyrir því að framlengja tvö stór lán. Þar með þarf flugfélagið ekki að inna af hendi nærri 47 milljarða króna á næstunni en þá upphæð hefði félagið ólíklega getað greitt miðað við núverandi stöðu. Þess vegna biðluðu stjórnendur Norwegian til lánardrottna nýverið og báðu um greiðslufrest gegn tryggingum í lendingarleyfum á Gatwick flugvelli í London. Til að tilboðið teldist samþykkt þurftu tveir af hverjum þremur skuldabréfaeigendum að greiða því atkvæði og það tókst.

Þar með fá stjórnendur Norwegian kærkominn vinnufrið til að leysa úr fjárhagsvanda flugfélagsins til lengri tíma og um leið endurskipuleggja reksturinn samkvæmt því sem fram kemur í frétt Dagens Nærlingsliv um niðurstöðu fundar skuldabréfaeigenda. Hlutabréf í Norwegian hækkuðu um fjórðung í síðustu viku og höfðu hækkað um nærri sex af hundraði í morgun þegar fundur skuldabréfaeigenda hófst.

Norwegian er umsvifamikið í flugi til og frá Íslandi og mun í vetur bjóða upp á áætlunarferðir héðan til Tenerife, Las Palmas, Madríd, Barcelona, Alicante og Óslóar.