Norwegian slapp fyrir horn

Eigendur skuldabréf í Norwegian samþykktu að seinka uppgjöri á stórum lánum sem voru á gjalddaga í desember og næsta sumar.

norwegian velar860
Mynd: Norwegian

Rétt í þessu var að ljúka fundi eigenda skulda­bréfa í Norwegian þar sem samþykki fékkst fyrir því að fram­lengja tvö stór lán. Þar með þarf flug­fé­lagið ekki að inna af hendi nærri 47 millj­arða króna á næst­unni en þá upphæð hefði félagið ólík­lega getað greitt miðað við núver­andi stöðu. Þess vegna biðluðu stjórn­endur Norwegian til lánar­drottna nýverið og báðu um greiðslu­frest gegn trygg­ingum í lend­ing­ar­leyfum á Gatwick flug­velli í London. Til að tilboðið teldist samþykkt þurftu tveir af hverjum þremur skulda­bréfa­eig­endum að greiða því atkvæði og það tókst.

Þar með fá stjórn­endur Norwegian kærkominn vinnu­frið til að leysa úr fjár­hags­vanda flug­fé­lagsins til lengri tíma og um leið endur­skipu­leggja rekst­urinn samkvæmt því sem fram kemur í frétt Dagens Nærlingsliv um niður­stöðu fundar skulda­bréfa­eig­enda. Hluta­bréf í Norwegian hækkuðu um fjórðung í síðustu viku og höfðu hækkað um nærri sex af hundraði í morgun þegar fundur skulda­bréfa­eig­enda hófst.

Norwegian er umsvifa­mikið í flugi til og frá Íslandi og mun í vetur bjóða upp á áætl­un­ar­ferðir héðan til Tenerife, Las Palmas, Madríd, Barcelona, Alicante og Óslóar.