Nýttu sumarið til að bæta við hlutum í Icelandair

Bandaríski fjárfestingasjóðurinn PAR Capital hefur styrkt stöðu sína sem stærsti hluthafinn í Icelandair samsteypunni.

Mynd: Icelandair

Hluthafar Icelandair Group samþykktu í lok síðasta árs að að auka hlutafé félagins töluvert og fjórum mánuðum síðar var tilkynnt að kaupandinn að þessu nýja hlutafé væri bandaríski fjárfestingasjóðurinn PAR Capital Management. Þar með var sjóðurinn kominn með 11,5 prósent hlut í Icelandair samsteypunni og nam kaupverðið um 5,6 milljörðum króna. Í maí bætti PAR Capital við fleiri hlutum og aftur nú í júní og júlí. Í lok ágúst var hlutur PAR Capital því kominn upp í 13,71 prósent en næst stærsti hluthafinn er Lífeyrissjóður verslunarmanna með 12 prósent. Vegna þess að PAR Capital hefur ekki farið yfir 15 prósenta mörkin þá hafa forsvarsmenn sjóðsins ekki þurft að tilkynna um viðskiptin.

Kaupgengi hlutabréfanna sem PAR Capital keypti í apríl sl. var 9,03. Ekki liggur fyrir á hvaða gengi sjóðurinn keypti á í júní og júlí en gengið þessa tvo mánuði var á bilinu 9 til 11. Í dag er það hins vegar komið niður í 7,13 og því ljóst að virði fjárfestingar PAR Capital í Icelandair hefur rýrnað verulega. Túristi hefur árangurslaust leitað viðbragða hjá PAR Capital við þeirri staðreynd og óskað eftir svörum við fleiri spurningum er varðar stöðu Icelandair. Enn þá hafa engin svör borist.

Líkt og Túristi fjallaði um í síðustu viku þá á PAR Capital hlut í fleiri flugfélögum og stjórnendur sjóðsins gerðu tilraun til að umbylta efstu lögum United Airlines fyrir aðalfund flugfélagsins árið 2016. Þessi valdabarátta varð kveikjan að mótmælum flugmanna United fyrir utan höfuðstöðvar PAR Capital í Boston.