Nýttu sumarið til að bæta við hlutum í Icelandair

Bandaríski fjárfestingasjóðurinn PAR Capital hefur styrkt stöðu sína sem stærsti hluthafinn í Icelandair samsteypunni.

Mynd: Icelandair

Hlut­hafar Icelandair Group samþykktu í lok síðasta árs að að auka hlutafé félagins tölu­vert og fjórum mánuðum síðar var tilkynnt að kaup­andinn að þessu nýja hlutafé væri banda­ríski fjár­fest­inga­sjóð­urinn PAR Capital Mana­gement. Þar með var sjóð­urinn kominn með 11,5 prósent hlut í Icelandair samsteyp­unni og nam kaup­verðið um 5,6 millj­örðum króna. Í maí bætti PAR Capital við fleiri hlutum og aftur nú í júní og júlí. Í lok ágúst var hlutur PAR Capital því kominn upp í 13,71 prósent en næst stærsti hlut­hafinn er Lífeyr­is­sjóður versl­un­ar­manna með 12 prósent. Vegna þess að PAR Capital hefur ekki farið yfir 15 prósenta mörkin þá hafa forsvars­menn sjóðsins ekki þurft að tilkynna um viðskiptin.

Kaup­gengi hluta­bréf­anna sem PAR Capital keypti í apríl sl. var 9,03. Ekki liggur fyrir á hvaða gengi sjóð­urinn keypti á í júní og júlí en gengið þessa tvo mánuði var á bilinu 9 til 11. Í dag er það hins vegar komið niður í 7,13 og því ljóst að virði fjár­fest­ingar PAR Capital í Icelandair hefur rýrnað veru­lega. Túristi hefur árang­urs­laust leitað viðbragða hjá PAR Capital við þeirri stað­reynd og óskað eftir svörum við fleiri spurn­ingum er varðar stöðu Icelandair. Enn þá hafa engin svör borist.

Líkt og Túristi fjallaði um í síðustu viku þá á PAR Capital hlut í fleiri flug­fé­lögum og stjórn­endur sjóðsins gerðu tilraun til að umbylta efstu lögum United Airlines fyrir aðal­fund flug­fé­lagsins árið 2016. Þessi valda­bar­átta varð kveikjan að mótmælum flug­manna United fyrir utan höfuð­stöðvar PAR Capital í Boston.