Samdráttur í sumarferðum Íslendinga

Rétt um 174 þúsund Íslendingar flugu frá Keflavíkurflugvelli yfir sumarmánuðina þrjá. Það er nokkur samdráttur frá síðustu tveimur árum en þónokkru meiri fjöldi en ferðast að jafnaði til útlanda.

Mynd: Isavia

Síðustu þrjú ár hafa verið metár þegar litið er til fjölda þeirra Íslendinga sem flaug frá Keflavíkurflugvelli. Og bætingin í fyrra var veruleg en þá flugu um 668 þúsund Íslendingar frá landinu. Fyrstu fjóra mánuði þess árs var ferðagleðin álíka og hún hafði verið á því tímabili í fyrra en svo fór utanlandsferðunum fækkandi og í sumar nam samdrátturinn um tíund frá sumrinu 2018. Og fjöldinn á nýliðnu sumri var líka aðeins minni en þar síðasta sumar eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan.

Sé horft lengra aftur í tímann sést hins vegar að ferðagleði Íslendinga hefur verið mjög mikil síðustu fimm ár enda framboð af ferðum gott og gengi krónunnar sterkt á stórum hluta tímabilsins. Blíðviðrið á Suður- og Vesturlandi í sumar hefur einnig vafalítið haft áhrif í sumar og til marks um það þá hafa auglýsingar á tilboðum á vegum ferðaskrifstofa verið áberandi undanfarnar vikur.