Samkomulag óháð kaupum á nýjum þotum

Icelandair Group hefur gert bráðabirgðasamkomulag við Boeing um bætur vegna MAX þotanna. Komandi kaup félagsins á nýjum flugvélum eru ekki hluti af málinu.

Fjórar af Boeing MAX þotum Icelandair. Mynd: Gunnlaugur Rögnvaldsson

Tjón Icelandair vegna kyrrsetningar Boeing MAX þotanna er nú metið á 135 milljónir dollara sem jafngildir 16,8 milljörðum króna. Náðst hefur bráðabirgðasamkomulag við bandaríska flugvélaframleiðandann um bætur fyrir hluta þessa tjóns samkvæmt því sem fram kom í tilkynningu frá Icelandair í gær. Aðspurð segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, að samkomulagið sé óháð yfirstandandi viðræðum flugfélagsins um kaup á nýjum þotum. En á næstu mánuðum er ætlunin að Icelandair gangi frá kaupum á þotum sem leysa eiga af hólmi Boeing 757 þotur félagsins sem komnar eru til ára sinna.

Í tilkynningu Icelandair í gær segir jafnframt að viðræður standi yfir við Boeing um að fá allt það tjón bætt sem kyrrsetning MAX vélanna hefur valdið félaginu. Á sama tíma stendur afkomuspá Icelandair Group fyrir árið 2019 óbreytt.

Líkt og Túristi fjallaði um nýverið þá eru komandi flugvélakaup Icelandair þau þriðju stóru sem stjórnendur Icelandair hafa ráðist í á þessari öld. Á árunum fyrir hrun voru keyptar Boeing Dreamliner þotur sem félagið tók þó aldrei í notkun heldur seldi réttinn á þeim til Norwegian. Þau eintök hafa ekki reynst eins vel eins og stjórnendur Norwegian reiknuðu með og eru meðal þeirra tíu Dreamliner þota sem félagið hefur átt í vandræðum með og þá aðallega vegna hreyfla frá Rolls Royce. Dreamliner þoturnar voru líka kyrrsettar í þrjá mánuði um heim allan snemma árs 2013.

Næstu flugvélaviðskipti Icelandair áttu sér stað árið 2012 þegar MAX þoturnar voru pantaðar en þær hafa leikið rekstur Icelandair grátt síðastliðið hálft ár. Enn er ekki ljóst hvenær fugvélarnar fara í loftið á ný en vetraráætlun Icelandair gerir ráð fyrir þeim í byrjun næsta árs.