Samráðs­hópur um kerf­is­lega mikilvæg flug­félög ekki lengur að störfum

Innan stjórnarráðsins var starfandi samráðshópur fjögurra ráðuneyta sem vann að var gerð viðbúnaðaráætlunar í því tilviki ef íslenskur flugrekandi lenti í rekstrarvanda eða færi í þrot. Sá hópur er ekki lengur að störfum. Prófessor í hagfræði mælist þó til að þingmenn fylgist með stöðu Icelandair. Forstjóri Icelandair segir ummælin ógætileg.

Mynd: Isavia

Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og nefnd­ar­maður í peninga­stefnu­nefnd, bað þing­menn um að fylgjast með stöðu Icelandair á fundi með efna­hags- og viðskipta­nefnd Alþingis í morgun. „Ég myndi sérstak­lega beina athygli ykkar að því stóra flug­fé­lagi sem við byggjum svo mikið á. Hvað er að gerast þar? Ef við reiknum fram í tímann, hvenær verður eigið féð þar komið á hættu­legt stig? Það má ekki veðja þjóð­ar­búinu á að við fáum bætur frá Boeing. Þetta er eitt­hvað sem þið verðið að huga að,“ sagði Gylfi samkvæmt frétt Frétta­blaðsins. Vísaði Gylfi þar til þess að stjórn­endur Icelandair hafa farið fram á bætur frá Boeing vegna þess skaða sem kyrr­setning MAX þota félagsins hefur valdið.

Samkvæmt svari frá samgöngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðu­neytinu, við fyrir­spurn Túrista, þá er ekki lengur að störfum samráðs­hópur stjórn­ar­ráðsins sem settur var á fót vorið 2018 í þeim tilgangi að fara yfir áhættu af kerf­is­lega mikil­vægum fyrir­tækjum. Flug­fé­lögin voru þar á meðal. Í svari ráðu­neyt­isins segir að meðal þess sem samráðs­hóp­urinn vann að var gerð viðbún­að­ar­áætl­unar í því tilviki ef íslenskur flugrek­andi lenti í rekstr­ar­vanda eða færi í þrot. „Með því lauk vinnu samráðsins um kerf­is­lega mikilvæg fyrir­tæki í flugi og ferða­þjón­ustu.”

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, hefur brugðist við ummælum Gylfa Zoega og segir þau ógætileg. Staða Icelandair hvað lausafé og eigið fé varðar sé sterk. „Mér finnst þetta ógætileg ummæli. Þeir sem fjalla um þessi mál, með þessum hætti og á þessum vett­vangi bera mikla ábyrgð og verða að vanda málflutning sinn,“ sagði Bogi Nils í samtali við Frétta­blaðið.