Samfélagsmiðlar

Segir mikilvægt að sækja fram

Sigurjóna Sverrrisdóttir tók nýverið við sem framkvæmdastjóri Ráðstefnuborgarinnar Reykjavík eða Meet in Reykjavík. Hún segir útlit fyrir metár á því næsta en verkefnastaðan gæti engu að síður verið betri.

Sigurjóna Sverrrisdóttir, nýr framkvæmdastjóri Ráðstefnuborgarinnar Reykjavík.

Ráðstefnuborgin Reykjavík er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, Icelandair Group og Hörpu og fjölda annarra fyrirtækja sem hafa hag af vexti ráðstefnu-, viðburða-, viðskipta- og hvataferðaþjónustu hér á landi eða svokallaðri MICE-ferðaþjónustu. Sigurjóna Sverrisdóttir hefur starfað hjá félaginu frá stofnun þess árið 2012 og tók við stjórnartaumum frá Þorsteini Erni Guðmundssyni síðla sumars. Af því tilefni lagði Túristi nokkrar spurningar fyrir Sigurjónu.

Hefur ráðstefnumarkaðurinn dregist saman í takt við fækkun farþega á Keflavíkurflugvelli síðustu mánuði eða er þróunin önnur?
Já, þróunin er önnur. Við erum ekki að upplifa samdrátt í komu MICE ferðamanna til landsins í ár og 2020 virðist ætla að verða metár bæði hér á landi og á heimsvísu. Þau aðildarfélög Meet in Reykjavík, sem sérhæfa sig í þjónustu við þennan hóp ferðamanna, bera sig almennt nokkuð vel og horfa fram á aukin vöxt á næstu árum. Kaupferli þessara gesta er töluvert lengra en þekkist í öðrum greinum ferðaþjónustunnar. Það getur verið allt frá nokkrum mánuðum upp í nokkur ár sem er í raun og veru mun algengara. Þetta á sérstaklega við í ráðstefnuhlutanum, til dæmis er meirihluti þeirra verkefna sem við erum að vinna í núna á áætlun 2022 til 2025. Auðvitað á þetta einungis við um hluta félagsmanna okkar, margir eru að þjónusta bæði MICE ferðamenn og aðra markhópa og þeir finna fyrir samdrætti. Við hjá Meet in Reykjavík finnum sannarlega fyrir því að staðan er víða erfið.

Hvernig er verkefnastaðan í vetur í samanburði við þann síðasta?
Meet in Reykjavík er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, Icelandair Group, Hörpu og fjölda annarra fyrirtækja, opinberra og einkarekinna, sem hafa hag af vexti MICE ferðaþjónustu hér á landi. Félagið er ekki rekið í hagnaðarskyni og okkar verkefnastaða ræðst af því fjármagni sem okkur er úthlutað hverju sinni. Það ræður því til dæmis hvað við getum tekið þátt í mörgum kaupstefnum, farið í margar söluheimsóknir, hvað við getum auglýst mikið og hvað við getum sent inn mörg tilboð eða umsóknir í áhugaverð verkefni svo dæmi séu tekin. Að því leyti gæti verkefnastaðan verið betri. Það fylgir oft ákveðin tilhneiging til að skera niður í markaðsstarfi þegar það harðnar á dalnum og maður hefur vissulega samúð með þeim mörgu fyrirtækjum sem þurfa að hagræða í sínum rekstri. Í þessu umhverfi er þó mikilvægt að sækja fram.
Það hefur þó gengið mjög vel að undanförnu að sækja verkefni til landsins og til dæmis er gaman að segja frá því að í maí birti ICCA (International Congress and Convention Association) sína árlegu tölfræði um fundar- og ráðstefnumarkaðinn og þar fór Reykjavík upp um 30 sæti á lista yfir stærstu ráðstefnuborgir heims. Það er svo sannarlega frábær árangur og núna deilum við fimmtugasta sæti með Vilnius og Zurich.
En ef við horfum á þau verkefni sem eru væntanleg til landsins í vetur þá er af nógu að taka. Það mætti til dæmis nefna „ECSMGE 2019“ sem er ráðstefna varðandi jarðtækni og verður haldin í Hörpu í september en búist er við um 900 þátttakendum. Einnig má nefna „Sustainable District Energy Conference“ og „6th Global District Energy Climate Awards“ sem fara fram í október en gert er ráð fyrir um 500 gestum á þá viðburði. Þá má ekki gleyma „Women Leaders Global Forum“ sem verður haldin í annað skipti hér á landi í nóvember en þar hittast kvennleiðtogar frá yfir 100 löndum. Þetta er aðeins lítið brot af verkefnaflórunni sem er fram undan.

Hvers konar fundir og ráðstefnur eru ykkar ær og kýr?
Undanfarin ár hefur okkur gengið vel að fá til landsins verkefni sem til dæmis tengjast málefnum jafnréttis, norðurslóða og jarðvarma í víðum skilningi. Samkeppnisforskot okkar liggur óneitanlega á slíkum sviðum enda býr hér mikil sérþekking á þessum málaflokkum. Við finnum líka fyrir vaxandi áhuga á verkefnum tengdum friðarmálum. Ísland hefur verið í fyrsta sæti á „Global Peace Index“ síðan árið 2008 og er þar af leiðandi áhugaverður áfangastaður fyrir mörg félagasamtök sem vilja vinna að þessum málum.
Okkur hefur líka gengið vel að fá til landsins ráðstefnur sérfræðilækna og ýmis verkefnis sem tengjast heilbrigðisvísindum. Þetta eru ráðstefnur sem henta mjög vel fyrir Ísland, eru af hentugri stærð og þátttakendur koma beggja vegna Atlantshafsins.

Á hvaða árstíma eru fundirnir flestir?
Það er mjög jákvæður árstíðarhalli í MICE ferðaþjónustu en um 80% gestanna koma til landsins utan skilgreinds háannatíma. Stærri ráðstefnur og hvataferðir eru undantekningalítið skipulagðar utan sumarleyfistíma. Sama á við um fundi og vinnustofur en viðburðarhald dreifist aðeins jafnar yfir árið.

Nú eru flugfarþegar víða orðnir mun meðvitaðri um losun frá flugi. Eru tækifæri í því fólgin fyrir Ísland í ljósi legu landsins þar sem amerískir og evrópskir þátttakendur geta mæst á miðri leið?
Umræðan um sjálfbærni er sífellt að aukast í MICE ferðaþjónustu. Það er ekki lengur æskilegt að áfangastaðir og fyrirtæki séu með yfirlýsta stefnu og alþjóðlega viðurkennda vottun í umhverfismálum, það er beinlínis orðin krafa af hálfu kaupenda. Það eru vissulega tækifæri fólgin í þessu fyrir Reykjavík og Ísland. Við erum að koma mjög vel út úr „Global Destination Sustainability Index“ sem mælir sjálfbærni MICE áfangastaða. Árið 2018 uppfyllti Reykjavík 89% markmiða vísitölunnar (GDS) og var í þriðja sæti á heimsvísu. Nýting á endurnýjanlegri orku er að hjálpa okkur mikið auk þess sem Reykjavíkurborg hefur sýnt mjög jákvætt frumkvæði í umhverfismálum. Ráðstefnuhótelin hafa líka verið öflug i að sækja sér vottun og allt er þetta að skila sér til hagsbóta fyrir áfangastaðinn.
Hvað flugið varðar, þá er það heldur flóknari spurning hvaða áhrif sú umræða muni hafa hér á landi. Ég tel að það ætti að vera forgangsmál hjá okkur öllum sem störfum í ferðaþjónustu hér á landi að sýna að Ísland ætli að verða hluti af lausninni þegar kemur að hamfara hlýnun af mannavöldum. Við getum gert betur í kolefnisbindingu, úthýsingu jarðefnaeldsneytis, matarsóun og plastnotkun svo eitthvað sé nefnt.

Nýtt efni

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …