Segir mikil­vægt að sækja fram

Sigurjóna Sverrrisdóttir tók nýverið við sem framkvæmdastjóri Ráðstefnuborgarinnar Reykjavík eða Meet in Reykjavík. Hún segir útlit fyrir metár á því næsta en verkefnastaðan gæti engu að síður verið betri.

Sigurjóna Sverrrisdóttir, nýr framkvæmdastjóri Ráðstefnuborgarinnar Reykjavík. Myndir: Meet in Reykjavík

Ráðstefnu­borgin Reykjavík er samstarfs­verk­efni Reykja­vík­ur­borgar, Icelandair Group og Hörpu og fjölda annarra fyrir­tækja sem hafa hag af vexti ráðstefnu‑, viðburða‑, viðskipta– og hvata­ferða­þjón­ustu hér á landi eða svokall­aðri MICE-ferða­þjón­ustu. Sigur­jóna Sverr­is­dóttir hefur starfað hjá félaginu frá stofnun þess árið 2012 og tók við stjórn­artaumum frá Þorsteini Erni Guðmunds­syni síðla sumars. Af því tilefni lagði Túristi nokkrar spurn­ingar fyrir Sigur­jónu.

Hefur ráðstefnu­mark­að­urinn dregist saman í takt við fækkun farþega á Kefla­vík­ur­flug­velli síðustu mánuði eða er þróunin önnur?
Já, þróunin er önnur. Við erum ekki að upplifa samdrátt í komu MICE ferða­manna til landsins í ár og 2020 virðist ætla að verða metár bæði hér á landi og á heimsvísu. Þau aðild­ar­félög Meet in Reykjavík, sem sérhæfa sig í þjón­ustu við þennan hóp ferða­manna, bera sig almennt nokkuð vel og horfa fram á aukin vöxt á næstu árum. Kaup­ferli þessara gesta er tölu­vert lengra en þekkist í öðrum greinum ferða­þjón­ust­unnar. Það getur verið allt frá nokkrum mánuðum upp í nokkur ár sem er í raun og veru mun algengara. Þetta á sérstak­lega við í ráðstefnu­hlut­anum, til dæmis er meiri­hluti þeirra verk­efna sem við erum að vinna í núna á áætlun 2022 til 2025. Auðvitað á þetta einungis við um hluta félags­manna okkar, margir eru að þjón­usta bæði MICE ferða­menn og aðra mark­hópa og þeir finna fyrir samdrætti. Við hjá Meet in Reykjavík finnum sann­ar­lega fyrir því að staðan er víða erfið.

Hvernig er verk­efnastaðan í vetur í saman­burði við þann síðasta?
Meet in Reykjavík er samstarfs­verk­efni Reykja­vík­ur­borgar, Icelandair Group, Hörpu og fjölda annarra fyrir­tækja, opin­berra og einka­rek­inna, sem hafa hag af vexti MICE ferða­þjón­ustu hér á landi. Félagið er ekki rekið í hagn­að­ar­skyni og okkar verk­efnastaða ræðst af því fjár­magni sem okkur er úthlutað hverju sinni. Það ræður því til dæmis hvað við getum tekið þátt í mörgum kaup­stefnum, farið í margar sölu­heim­sóknir, hvað við getum auglýst mikið og hvað við getum sent inn mörg tilboð eða umsóknir í áhuga­verð verk­efni svo dæmi séu tekin. Að því leyti gæti verk­efnastaðan verið betri. Það fylgir oft ákveðin tilhneiging til að skera niður í mark­aðs­starfi þegar það harðnar á dalnum og maður hefur vissu­lega samúð með þeim mörgu fyrir­tækjum sem þurfa að hagræða í sínum rekstri. Í þessu umhverfi er þó mikil­vægt að sækja fram.
Það hefur þó gengið mjög vel að undan­förnu að sækja verk­efni til landsins og til dæmis er gaman að segja frá því að í maí birti ICCA (Internati­onal Congress and Convention Association) sína árlegu tölfræði um fundar- og ráðstefnu­mark­aðinn og þar fór Reykjavík upp um 30 sæti á lista yfir stærstu ráðstefnu­borgir heims. Það er svo sann­ar­lega frábær árangur og núna deilum við fimm­tug­asta sæti með Vilnius og Zurich.
En ef við horfum á þau verk­efni sem eru vænt­anleg til landsins í vetur þá er af nógu að taka. Það mætti til dæmis nefna „ECSMGE 2019“ sem er ráðstefna varð­andi jarð­tækni og verður haldin í Hörpu í sept­ember en búist er við um 900 þátt­tak­endum. Einnig má nefna „Sustainable District Energy Conf­erence“ og „6th Global District Energy Climate Awards“ sem fara fram í október en gert er ráð fyrir um 500 gestum á þá viðburði. Þá má ekki gleyma „Women Leaders Global Forum“ sem verður haldin í annað skipti hér á landi í nóvember en þar hittast kvenn­leið­togar frá yfir 100 löndum. Þetta er aðeins lítið brot af verk­efna­flór­unni sem er fram undan.

Hvers konar fundir og ráðstefnur eru ykkar ær og kýr?
Undan­farin ár hefur okkur gengið vel að fá til landsins verk­efni sem til dæmis tengjast málefnum jafn­réttis, norð­ur­slóða og jarð­varma í víðum skiln­ingi. Samkeppn­is­for­skot okkar liggur óneit­an­lega á slíkum sviðum enda býr hér mikil sérþekking á þessum mála­flokkum. Við finnum líka fyrir vaxandi áhuga á verk­efnum tengdum frið­ar­málum. Ísland hefur verið í fyrsta sæti á „Global Peace Index“ síðan árið 2008 og er þar af leið­andi áhuga­verður áfanga­staður fyrir mörg félaga­samtök sem vilja vinna að þessum málum.
Okkur hefur líka gengið vel að fá til landsins ráðstefnur sérfræðilækna og ýmis verk­efnis sem tengjast heil­brigð­is­vís­indum. Þetta eru ráðstefnur sem henta mjög vel fyrir Ísland, eru af hent­ugri stærð og þátt­tak­endur koma beggja vegna Atlants­hafsins.

Á hvaða árstíma eru fund­irnir flestir?
Það er mjög jákvæður árstíð­ar­halli í MICE ferða­þjón­ustu en um 80% gest­anna koma til landsins utan skil­greinds háanna­tíma. Stærri ráðstefnur og hvata­ferðir eru undan­tekn­inga­lítið skipu­lagðar utan sumar­leyf­is­tíma. Sama á við um fundi og vinnu­stofur en viðburð­ar­hald dreifist aðeins jafnar yfir árið.

Nú eru flug­far­þegar víða orðnir mun meðvit­aðri um losun frá flugi. Eru tæki­færi í því fólgin fyrir Ísland í ljósi legu landsins þar sem amer­ískir og evrópskir þátt­tak­endur geta mæst á miðri leið?
Umræðan um sjálf­bærni er sífellt að aukast í MICE ferða­þjón­ustu. Það er ekki lengur æski­legt að áfanga­staðir og fyrir­tæki séu með yfir­lýsta stefnu og alþjóð­lega viður­kennda vottun í umhverf­is­málum, það er bein­línis orðin krafa af hálfu kaup­enda. Það eru vissu­lega tæki­færi fólgin í þessu fyrir Reykjavík og Ísland. Við erum að koma mjög vel út úr „Global Dest­ination Sustaina­bility Index“ sem mælir sjálf­bærni MICE áfanga­staða. Árið 2018 uppfyllti Reykjavík 89% mark­miða vísi­töl­unnar (GDS) og var í þriðja sæti á heimsvísu. Nýting á endur­nýj­an­legri orku er að hjálpa okkur mikið auk þess sem Reykja­vík­ur­borg hefur sýnt mjög jákvætt frum­kvæði í umhverf­is­málum. Ráðstefnu­hót­elin hafa líka verið öflug i að sækja sér vottun og allt er þetta að skila sér til hags­bóta fyrir áfanga­staðinn.
Hvað flugið varðar, þá er það heldur flóknari spurning hvaða áhrif sú umræða muni hafa hér á landi. Ég tel að það ætti að vera forgangsmál hjá okkur öllum sem störfum í ferða­þjón­ustu hér á landi að sýna að Ísland ætli að verða hluti af lausn­inni þegar kemur að hamfara hlýnun af manna­völdum. Við getum gert betur í kolefn­is­bind­ingu, úthýs­ingu jarð­efna­eldsneytis, matar­sóun og plast­notkun svo eitt­hvað sé nefnt.