Segja upp 87 flugmönnum

Flugmenn Icelandair seinka launahækkunum og fjöldi þeirra missir vinnuna í vetur í það minnsta.

Eftir uppsagnir þá starfa um 460 flugmenn og flugstjórar hjá Icelandair. Mynd: Icelandair

Um síðustu mánaðamót voru gerðar tímabundnar breytingar hjá hópi flugmanna og flugstjóra Icelandair sem gerðu ráð fyrir að 111 flugmenn yrðu færðir niður í 50 prósent starf í vetur. Nú hefur hins vegar verið ákveðið að draga þessa ráðstöfun til baka og í stað þess segja 87 flugmönnum upp starfi frá og með 1. október nk.

Í tilkynningu frá Icelandair segir að vonast sé til að hægt verði að bjóða sem flestum þessara flugmanna starf á ný næsta vor. Hjá félaginu starfa áfram um 460 flugmenn og flugstjórar.

Á sama tíma hefur Icelandair og Félag íslenskra atvinnuflugmanna undirritað framlengingu á kjarasamningi sem gildir til 30. september 2020. Samningurinn kveður á að samningsbundin launahækkun, sem taka átti gildi um næstu mánaðamót, frestast til 1. apríl á næsta ári og engar aðrar launahækkanir munu eiga sér stað á tímabilinu. Samhliða þessu var undirrituð viljayfirlýsing sömu aðila um að skipa starfshóp til að útfæra ýmis atriði sem snúa að starfsfyrirkomulagi flugmanna sem miða að því að styrkja samkeppnishæfni Icelandair. Samningurinn fer nú í atkvæðagreiðslu hjá félagsmönnum FÍA.

„Það er mikilvægt að ganga frá samningum við FÍA á þessum tímapunkti. Báðir aðilar átta sig á því að leita þarf sameiginlegra lausna sem þjóna hagsmunum Icelandair og flugmanna. Flugmenn sýna það í verki með því að fresta samningsbundnum launahækkunum. Við höfum á liðnum árum átt gott samstarf við FÍA um úrlausnir ýmissa mála er snúa að kjaramálum flugmanna og samkeppnishæfni Icelandair og aðilar eru sammála um að leggja enn meiri áherslu á þá vinnu. Það er alltaf erfið ákvörðun að segja upp starfsfólki en í ljósi þeirrar fordæmalausu stöðu sem félagið er í vegna flotamála verðum við því miður að grípa til þessara aðgerða. Við vonumst til að geta boðið þessum flugmönnum starf aftur fyrir næsta sumar,“ segir Bogi Nils Bogason í tilkynningu.

Boeing MAX þotur Icelandair hafa nú verið kyrrsettar í meira en hálft ár og ennþá liggur ekki fyrir hvenær þær fara í loftið á ný.