Skera niður sólarlandaflug í vetur

Brottförum Norwegian frá Keflavíkurflugvelli til Tenerife og Alicante hefur verið fækkað.

Frá Alicante. Mynd: Cale Weaver / Unsplash

Eftir fall WOW air varð Norwegian umsvifamesta flugfélagið í fólksflutningum milli Íslands og Spánar og komandi vetraráætlun gerir ráð fyrir enn fleiri ferðum en áður. Þannig verður áframhald á flugi héðan allan ársins hring til Madrídar, Barcelona og Alicante og því til viðbótar munu Boeing þotur félagsins fljúga reglulega með farþega frá Keflavíkurflugvelli til Tenerife og Las Palmas á Kanarí.

Ferðirnar verða þó ekki eins margar og áður hafði verið gert ráð fyrir. Núna er til að mynda aðeins hægt að bóka tvær til þrjár ferðir í viku með Norwegian til Tenerife en áður voru brottfarirnar fimm talsins. Á sama hátt hefur ferðunum til Alicante verið fækkað úr fjórum í þrjár. Framboðið er því áfram töluvert og í raun meira en síðastliðinn vetur.

Túristi hefur óskað eftir skýringum á þessum niðurskurði frá blaðafulltrúa Norwegian og eins hvort farþegum, sem eiga bókuð sæti í brottfarirnar sem nú falla niður, hafi verið gert viðvart. Gera má ráð fyrir að félagið bjóði farþegum sæti í aðrar ferðir en þess háttar breytingar riðla ferðaplönum fólks og sérstaklega þeim sem hafa pantað gistingu en geta ekki breytt komu- og brottfarardegi.

Líkt og fjallað hefur verið um hér á síðunni er staða Norwegian óljós. Félagið reynir þessa dagana að ná samkomulagi við lánardrottna um framlengingu á lánum og á sama tíma hafa vandræði á Boeing MAX og Dreamliner þotum leikið félagið grátt.