Thomas Cook gjaldþrota

Á heimsvísu er meira en hálf milljón farþega strandaglópar eftir að stjórnendur Thomas Cook óskuðu eftir gjaldþroti í nótt. Hjá fyrirtækinu störfuðu tuttugu og eitt þúsund manns í sextán löndum.

Þotur Thomas Cook standa nú á jörðu niðri á við og dreif um heiminn. Mynd: Thomas Cook Airlines

Rétt fyrir miðnætti í gærkvöld var ennþá hægt að bóka tilboð á sólarlandaferðum á heimasíðum Thomas Cook í Bretlandi. Tæpum klukkutíma síðar var hins vegar tilkynnt að reksturinn hefði verið stöðvaður og voru flugferðir frá Bretlandi felldar niður í kjölfarið. Endalok Thomas Cook hafa legið í loftinu síðustu misseri en vonir stóðu til að takast myndi að endurfjármagna reksturinn. Ný krafa fjármálastofnanna um viðbótarfjármagn upp á um 30 milljarða króna reyndist hins vegar of stór biti.

Áætlað er að um hálf milljón farþega sé í dag á ferðalagi víðs vegar um heiminn á vegum Thomas Cook. Þar af um 150 þúsund Bretar en bresk stjórnvöld hafa gefið út að þeim farþegum verði flogið heim án viðbótar kostnaðar. Samkvæmt frétt Independent munu bresk yfirvöld leigja um fjörutíu þotur í þessa miklu fólksflutninga sem gætu orðið þeir umfangs­mestu á friðartímum þar í landi.

Rekstur Thomas Cook takmarkaðist þó ekki aðeins við Bretland því samsteypan átti líka nokkrar af stærstu ferðaskrifstofum Evrópu og var fyrirtækið til að mynda umsvifamikið í Skandinavíu. Á heimasíðum þessara skandinavísku dótturfélaga er ennþá hægt að bóka ferðir en tekið er fram að framtíð fyrirtækjanna sé óljós á þessari stundu en ljóst sé að þotur systurfélagsins, Thomas Cook Airlines, hafi verið kyrrsettar. Þar með hefur heimferðum 3375 Skandinava í dag verið aflýst.

Ísland var einn þeirra áfangastaða sem Thomas Cook hafði á boðstólum en ekki liggur fyrir hversu umfangsmikil ferðaskrifstofan var í sölu  reisum hingað til lands. Gera má ráð fyrir að skyldutryggingar ferðaskrifstofa dugi til að tryggja viðskiptavinum ferðaskrifstofunnar hér á landi heimferð. Þeir sem eiga inni bókaða ferð með Thomas Cook til Íslands eða annarra landa verða að leita endurgreiðslu, t.d. hjá kreditkortafyrirtækjum.

Sem fyrr segir þá hefur Thomas Cook verið mjög umsvifamikið í Skandinavíu og þá í samkeppni við ferðaskrifstofurnar sem tilheyrðu Primera Travel veldi Andra Más Ingólfssonar. Arion banki tók þá starfsemi yfir í sumar og stendur núna yfir söluferli á þeim rekstri. Gjaldþrot Thomas Cook gæti haft umtalsverð áhrif á það verkefni því telja má líklegt að verulegt rót komist nú á ferðaþjónustumarkaðinn í Skandinavíu.