Þotur fá andlits­lyft­ingu og stjórn­endum fækkað

Forstjóri SAS kynnti í morgun nýtt útlit á þotum flugfélagsins. Um mánaðarmótin fækkar svo framkvæmdastjórum fyrirtækisins.

Svona eiga allar SAS þotur að líta út fyrir árslok 2024. Mynd: SAS

Splunku­nýjar Airbus þotur í nokkrum stærð­ar­flokkum bætast við flota skand­in­víska flug­fé­lagsins SAS á næstu árum. Og þær verða ekki málaðar á sama hátt og flug­vél­arnar sem fyrir eru. Bláir liturinn á stélinu mun nefni­lega ná yfir mun stærra svæði en áður og hreyfl­arnir verða ekki lengur rauðir heldur silf­ur­lit­aðir. Heiti félagsins verður jafn­framt silfrað á búknum. Þetta er meðal þeirra breyt­inga sem kynntar voru við athöfn í Kaup­manna­höfn í morgun. Núver­andi útlit á flug­flota SAS hefur verið við lýði í tuttugu og eitt ár og því kominn tími á andlits­lyft­ingu að mati stjórn­enda félagsins.

Sem fyrr segir er endur­nýjun flug­flota SAS helsta kveikjan að nýja útlitinu en félagið hefur pantað nýjar Airbus þotur af gerð­unum A350, A320neo, A330 og A321LR. Þær verða afhentar í áföngum fram til ársins 2023 og ári síðar er ætlunin að allar eldri þotur verði líka komnar í nýju litina. Í tilkynn­ingu frá SAS segir að máln­ingin sem notuð verður þekji mun betur en sú eldri og þar með þurfi ekki eins margar umferðir sem létti vélarnar tölu­vert og dragi enn frekar úr eldsneyt­is­þörf.

Á sama hátt ætlar SAS að létta stjórnun fyrir­tæk­isins með því að fækka í fram­kvæmda­stjórn nú um mánaða­mótin. Eftir breyt­ingar verða þar sex fram­kvæmda­stjórar auk forstjórans en til saman­burðar eru níu í fram­kvæmda­stjórn Icelandair. SAS flutti um 29 millj­ónir farþega í fyrra en rétt rúmlega fjórar millj­ónir flugu með Icelandair.