Til Kaupmannahafnar fyrir 13 þúsund í allan vetur

Ef þú nennir í næturflug héðan til höfuðborgar Danmerkur þá er hægt að bóka farmiða fyrir lítið í vetur.

cph amalienborg ty stange
Frá Amalienborg höll í Kaupmannahöfn. Mynd: Ty Stange / Copenhagen Media Centre

Þotur Icelandair og SAS fljúga daglega héðan til Kaupmannahafnar og í vetur mun tékkneska flugfélagið Czech Airlines gera slíkt hið sama. Tékkarnir leggja í hann klukkan hálf fimm um nótt frá Keflavíkurflugvelli og vélin lendir því í morgunsárið við Kastrup. Þotan heldur svo áfram til Prag með þá farþega sem eru á leið þangað. Brottför frá Kaupmannahöfn er svo á dagskrá um klukkan átta að kveldi.

Af þessum sökum verður flugferðin héðan til Prag nokkuð löng eða um fimm og hálfur klukkutími en ekkert annað flugfélag sinnir áætlunarferðum milli Íslands og tékknesku höfuðborgarinnar.

Sala á farmiðum í þetta óvenjulega Íslandsflug Czech Airlines til Kaupmannahafnar og Prag er nýlega hafin og eins og staðan er núna er hægt að finna miða á tæpar 13 þúsund krónur til dönsku borgarinnar í nærri allar brottfarir vetrarins. Til Prag kostar farmiðinn litlu meira þrátt fyrir lengra ferðalag. Heimflugin kosta nærri það sama.

Sem fyrr segir þá bjóða Icelandair og SAS einnig upp á ferðir héðan til Kaupmannahafnar og er hægt að finna dagsetningar þar sem farmiðarnir kosta álíka eða minna en hjá Czech Airlines. Hjá því síðastnefnda eru ódýru farmiðarnir hins vegar á boðstólum alla daga eins og staðan er núna.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista