Tvær af hverjum þremur ferðum á vegum Icelandair

Það voru tuttugu og þrjú flugfélög sem buðu upp á áætlunarferðir frá Keflavíkurflugvelli í ágúst. Hið eina íslenska stóð þó undir bróðurpartinum.

Úr Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Mynd: Isavia

Það voru að jafnaði farnar áttatíu áætlunarferðir frá Keflavíkurflugvelli á degi hverjum í nýliðnum ágúst. Á sama tíma í fyrra voru brottfarirnar um 103 á dag og samdrátturinn nemur því um 22 prósentum. Það er ögn minna en í júní (25%) og júlí (28%) samkvæmt talningum Túrista.

Líkt og fyrr í sumar þá er það Icelandair sem stendur undir langflestum brottförum frá Keflavíkurflugvelli eða tveimur af hverjum þremur. Hlutdeild félagsins hefur aukist umtalsvert eftir fall WOW air eins og sjá má á súluritinu. Wizz Air er næst umsvifamest og þar á eftir kemur SAS.