Verðmiðinn á WOW hefur lækkað hratt

Forsvarsfólk hins endurreista WOW air greiddi miklu minna fyrir vörumerki flugfélagsins og fleiri eignir en áður hafði verið greint frá.

Mynd: WOW air

Michele Roosevelt Edwards, áður Ballarin, stjórnarformaður US Aerospace Associates, greiddi fimmtíu milljónir króna fyrir eignir úr þrotabúi WOW air samkvæmt frétt Vísis í dag. Þar segir að hún hafi keypt margvíslegar rekstrarvörur, varahluti, bókunartækni og handbækur úr þrotabúinu. Áður hafði Edwards staðfest að hún væri nýr eigandi vörumerkis WOW air.

Athygli vekur að kaupverðið, sem Vísir tilgreinir í frétt sinni í dag, er um 130 milljónum lægra en það verð sem viðskiptakálfur Morgunsblaðsins sagði Ballarin hafa ætlað að greiða í sumar fyrir þessar sömu eignir. Þá sagði í frétt blaðsins að heild­ar­virði viðskipt­anna hafi hljóðað upp á tæp­ar 1,5 millj­ón­ir doll­ara eða ríf­lega 180 millj­ón­ir króna. Ef heimildir Morgunblaðsins hafa staðist í sumar þá er ljóst, miðað við upphæðina í frétt Vísis, að þrotabúið hefur fengið mun minna fyrir vörumerki WOW og aðrar tengdar eignir en gert var ráð fyrir í lok júlí.

Dregist hefur að setja heimasíðu WOW air í loftið því upphaflega stóð til að hefja miðasölu í síðustu viku. Á sama tíma liggur ekki fyrir hvenær hið nýja WOW air fær flugrekstrarleyfi eða afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli eða á Dulles í Washington.