Verð­miðinn á WOW hefur lækkað hratt

Forsvarsfólk hins endurreista WOW air greiddi miklu minna fyrir vörumerki flugfélagsins og fleiri eignir en áður hafði verið greint frá.

Mynd: WOW air

Michele Roosevelt Edwards, áður Ball­arin, stjórn­ar­formaður US Aerospace Associates, greiddi fimmtíu millj­ónir króna fyrir eignir úr þrotabúi WOW air samkvæmt frétt Vísis í dag. Þar segir að hún hafi keypt marg­vís­legar rekstr­ar­vörur, vara­hluti, bókun­ar­tækni og hand­bækur úr þrota­búinu. Áður hafði Edwards stað­fest að hún væri nýr eigandi vörumerkis WOW air.

Athygli vekur að kaup­verðið, sem Vísir tilgreinir í frétt sinni í dag, er um 130 millj­ónum lægra en það verð sem viðskipta­kálfur Morg­uns­blaðsins sagði Ball­arin hafa ætlað að greiða í sumar fyrir þessar sömu eignir. Þá sagði í frétt blaðsins að heild­ar­virði viðskipt­anna hafi hljóðað upp á tæp­ar 1,5 millj­ón­ir doll­ara eða ríf­lega 180 millj­ón­ir króna. Ef heim­ildir Morg­un­blaðsins hafa staðist í sumar þá er ljóst, miðað við upphæðina í frétt Vísis, að þrota­búið hefur fengið mun minna fyrir vörumerki WOW og aðrar tengdar eignir en gert var ráð fyrir í lok júlí.

Dregist hefur að setja heima­síðu WOW air í loftið því upphaf­lega stóð til að hefja miða­sölu í síðustu viku. Á sama tíma liggur ekki fyrir hvenær hið nýja WOW air fær flugrekstr­ar­leyfi eða afgreiðslu­tíma á Kefla­vík­ur­flug­velli eða á Dulles í Washington.