Vetrarferðir til Vilnius á nýjan leik

Mikil eftirspurn eftir flugi milli Íslands og höfuðborg Litháen er ástæða þess að Wizz Air gerir aðra tilraun til að halda úti þessari flugleið utan háannatíma.

Vilnius í vetrarbúningi. Mynd: Ferðamálaráð Vilnius

Jómfrúarferð  Wizz Air, frá Vilníus í Litháen til Íslands, var farin haustið 2016 og þá var ætlunin að starfrækja flugleiðina allt árið um kring. Af því varð þó ekki því síðasta vetur lágu ferðirnar niðri en nú ætla stjórnendur þess  ungverska lággjaldaflugfélags að gera aðra tilraun. „Við sáum að eftirspurn eftir þessari flugleið yfir vetrarmánuðina er jákvæð og því var ákveðið fyrr í sumar að gera þetta að heilsárs flugleið,“ segir Andras Rado, blaðafulltrúi Wizz Air, í svari við fyrirspurn Túrista. „Við höfum fulla trú á velgengni þessarar leiðar,“ bætir Rado við. Af fargjöldunum að dæma þá er töluvert af lausum sætum í ferðir Wizz Air næstu mánaða og kosta ódýrustu farmiðarnir rétt um 4 þúsund krónur, aðra leið.

Talsmaður Wizz Air segist lítið geta gefið út um hvernig farþegar í Íslandsfluginu frá Litháen skiptast á milli þjóða. Það eru þó ekki aðeins Litháar og Íslendingar um borð því Hvít-Rússar nýta sér þessar ferðir einnig enda stutt frá flugvellinum í Vilníus yfir að landamærum Hvíta-Rússlands. Rado segir þó að vægi Hvít-Rússa í farþegahópnum mælist í eins stafs tölu.

Auk áætlunarferða hingað frá höfuðborg Litháen á miðvikudögum og laugardögum þá býður Wizz air upp á  Íslandsflug frá fimm borgum í Póllandi, Búdapest, London, Vínarborg og Riga í Lettlandi.