Vinna að því að endurvekja vefsíðu WOW og hefja miðasölu

Eftir í mesta lagi átta viku er stefnt að því að hefja áætlunarflug á vegum WOW air milli Íslands og Washington borgar.

Þotur á vegum WOW air verði farnar að fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli á nýjan leik áður en október er allur. Það er alla vega ætlun Michele Roos­evelt Edwards, áður Michele Ballarin, og viðskiptafélaga hjá US Aerospace Associates sem keypt hafa vörumerki WOW air af þrotabúi félagsins.

Á fundi með blaðamönnum í dag sagði Edwards að ætlunin væri að jómfrúarferðin yrði farin frá Washington Dulles flugvelli til Íslands fyrir lok október og félagið myndi í upphafi notast við bandarískt flugrekstrarleyfi.

Á fundinum kom ekki fram hvert flugfélagið myndi fljúga nema þá til Dulles flugvallar í Washington og eins sagði Edwards ekkert um hvenær miðasala hefst. Túristi hafði ekki tök á að sækja fundinn en í svari frá Páli Ágústi Ólafssyni, lögmanni Edwards, segir að nú sé unnið að því að koma vefsíðu WOW air í loftið og í kjölfarið hefjist miðasala.

Það er þó ljóst að ekki er langur tími til stefnu því sem fyrr segir er stefnt á fyrsta flug hins nýja WOW í lok næsta mánaðar. Ekki er nokkur dæmi um að hið upprunalega WOW air hafi sett í loftið flugleið með svona stuttum fyrirvara samkvæmt því sem Túrista rekur minni til.

Þegar Michele Edwards, þá Ballerin, kom fyrst fram og kynnti áfrom sín um endurreisn WOW air þá sagði hún, líkt og nú, að ætlunin væri að félagið hefði starfsstöð á Dulles flugvelli í Washington borg. Í kjölfarið greindi Túristi frá því að flugmálayfirvöld í bandarísku höfuðborginni könnuðust ekki við Ballarin eða áform hennar.

Eftir blaðamannafundinn í dag leitaði Túristi aftur viðbragða frá yfirvöldum á Dulles flugvelli og í svari þeirra segir að fulltrúar þeirra hafi átt einn fund með Ballerin og viðskiptafélögum varðandi það að hefja flugþjónustu á flugvellinum.  Sá hafi farið fram í síðasta mánuði en núna væri ekki nein flug á vegum WOW air á dagskrá og ekki hægt að tilkynna um nýjar flugleiðir.

Páll Ágúst segir, aðspurður að þessi svör, að þau séu ekki í samræmi við þær upplýsingar sem hann hafi. Hann lofaði að kanna málið nánar. Eins hefur Túristi óskað eftir upplýsingum um heiti flugrekandans sem sjá á um flugferðir hins endurreista WOW air.