Vinna að því að endur­vekja vefsíðu WOW og hefja miða­sölu

Eftir í mesta lagi átta viku er stefnt að því að hefja áætlunarflug á vegum WOW air milli Íslands og Washington borgar.

Þotur á vegum WOW air verði farnar að fljúga til og frá Kefla­vík­ur­flug­velli á nýjan leik áður en október er allur. Það er alla vega ætlun Michele Roos­evelt Edwards, áður Michele Ball­arin, og viðskipta­fé­laga hjá US Aerospace Associates sem keypt hafa vörumerki WOW air af þrotabúi félagsins.

Á fundi með blaða­mönnum í dag sagði Edwards að ætlunin væri að jómfrú­ar­ferðin yrði farin frá Washington Dulles flug­velli til Íslands fyrir lok október og félagið myndi í upphafi notast við banda­rískt flugrekstr­ar­leyfi.

Á fund­inum kom ekki fram hvert flug­fé­lagið myndi fljúga nema þá til Dulles flug­vallar í Washington og eins sagði Edwards ekkert um hvenær miða­sala hefst. Túristi hafði ekki tök á að sækja fundinn en í svari frá Páli Ágústi Ólafs­syni, lögmanni Edwards, segir að nú sé unnið að því að koma vefsíðu WOW air í loftið og í kjöl­farið hefjist miða­sala.

Það er þó ljóst að ekki er langur tími til stefnu því sem fyrr segir er stefnt á fyrsta flug hins nýja WOW í lok næsta mánaðar. Ekki er nokkur dæmi um að hið uppruna­lega WOW air hafi sett í loftið flug­leið með svona stuttum fyrir­vara samkvæmt því sem Túrista rekur minni til.

Þegar Michele Edwards, þá Ballerin, kom fyrst fram og kynnti áfrom sín um endur­reisn WOW air þá sagði hún, líkt og nú, að ætlunin væri að félagið hefði starfs­stöð á Dulles flug­velli í Washington borg. Í kjöl­farið greindi Túristi frá því að flug­mála­yf­ir­völd í banda­rísku höfuð­borg­inni könn­uðust ekki við Ball­arin eða áform hennar.

Eftir blaða­manna­fundinn í dag leitaði Túristi aftur viðbragða frá yfir­völdum á Dulles flug­velli og í svari þeirra segir að full­trúar þeirra hafi átt einn fund með Ballerin og viðskipta­fé­lögum varð­andi það að hefja flug­þjón­ustu á flug­vell­inum.  Sá hafi farið fram í síðasta mánuði en núna væri ekki nein flug á vegum WOW air á dagskrá og ekki hægt að tilkynna um nýjar flug­leiðir.

Páll Ágúst segir, aðspurður að þessi svör, að þau séu ekki í samræmi við þær upplýs­ingar sem hann hafi. Hann lofaði að kanna málið nánar. Eins hefur Túristi óskað eftir upplýs­ingum um heiti flugrek­andans sem sjá á um flug­ferðir hins endur­reista WOW air.